Vilja enn flytja Gæsluna

Þingsályktunartillaga um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar hefur verið endurflutt af átta þingmönnum Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Tillagan hefur ítrekað verið flutt á undanförnum þinginum án þess að hún næði fram að ganga. Síðast á síðasta þingi. Fram kemur í greinargerð að með breytingunni yrði Gæslan flutt í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

„Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja alla starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin, nánar tiltekið á öryggissvæðið á Ásbrú, en nú þegar er Landhelgisgæslan með umfangsmikla starfsemi á svæðinu og þúsundir fermetra af vannýttu húsnæði. Það fylgir því mikil hagræðing að hafa alla starfsemina á einum stað og þjónusta og öryggi munu einnig aukast þar sem viðbragðstími Landhelgisgæslunnar styttist með því að færa alla starfsemi hennar. Einnig mun flugfloti gæslunnar komast í gott framtíðarhúsnæði sem uppfyllir öryggisstaðla,“ segir ennfremur.

Fyrsti flutningsmaður er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert