Fræðimenn ósammála forseta

Forseti Íslands, forsetafrú, biskup og forseti Hæstaréttar við innsetningu í …
Forseti Íslands, forsetafrú, biskup og forseti Hæstaréttar við innsetningu í embætti í ágúst 2012. mbl.is/Eggert

Það hefur kosti og galla að kjósa samtímis til embættis forseta Íslands og um breytingar á stjórnarskránni, sem m.a. geta haft áhrif á valdsvið forsetans, en það er ekki andlýðræðislegt. Þetta er mat tveggja fræðimanna við Háskóla Íslands sem Morgunblaðið ræddi við. Í þingsetningarræðu sinni á mánudaginn lýsti Ólafur Ragnar Grímsson forseti þeirri skoðun sinni að það að tengja verulegar breytingar á stjórnarskránni við kjör forseta lýðveldisins væri andstætt lýðræðislegu eðli.

„Ég get ekki séð að það sé andlýðræðislegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samfara forsetakosningum eða þingkosningum. Í mörgum fylkjum Bandaríkjanna eru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða þing- og forsetakosningum og þar er öll fulltrúadeild og hluti öldungadeildar kjörin á sama degi og forsetinn. Í Svíþjóð hefur verið kosið til sveitarstjórna um leið og kosið er til þings. Frá fyrstu íslensku stjórnarskránni 1874 til allra síðustu ára var bara ein leið til að breyta íslenskri stjórnarskrá: þing samþykkti breytingu, síðan voru alþingiskosningar, og svo þurfti nýtt þing að samþykkja sama stjórnarskrárfrumvarp óbreytt. Í seinni kosningunum voru kjósendur sem sé bæði að kjósa þingmenn til fjögurra eða sex ára – og kjósa um stjórnarskrárbreytingar. Fleiri lönd hafa haft þennan háttinn á,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.

Varla andlýðræðislegt

„Deila má um kosti og galla þessa fyrirkomulags,“ segir Ólafur, „en er það andlýðræðislegt? Höfum við verið með andlýðræðislega stjórnarskrá síðan 1874?

Það að hafa margar tegundir kosninga á sama degi hefur bæði kosti og galla. Kosturinn er sá helstur, að þetta fyrirkomulag er aukin þjónusta við kjósendur: gerir þeim auðveldara fyrir að kjósa. Reynslan sýnir, að margar kosningar, m.a. margar þjóðaratkvæðagreiðslur, hafa tilhneigingu til að draga úr kjörsókn – sem reyndar hefur líka minnkað víða þar sem kosningar eru fáar. Kostnaður við fáar kosningar er minni en við margar kosningar, en það eru tæplega gild rök: ef við veljum útgáfu lýðræðis sem krefst margra kosninga verðum við auðvitað að borga fyrir það. Við höfum auðvitað efni á að velja það lýðræðisform sem við teljum best og lýðræðislegast. Gallinn við að hafa margar tegundir kosninga á einum degi er helstur sá, að kjósendur þurfa að hugsa um fleiri en eitt mál í einu. Sá galli er þó sennilega lítilvægur miðað við kosti fyrirkomulagsins. Ekki virðist t.d. reynsla Svía eða Bandaríkjamanna um þetta hafa haft skaðlegar afleiðingar,“ segir Ólafur og bætir við: „Auðvitað má líka segja, að sumpart sé óheppilegt að gera miklar breytingar á embætti forseta í stjórnarskrá um leið og forseti er kosinn. En Íslendingar hafa margoft breytt stjórnarskrárákvæðum um alþingiskosningar um leið og nýtt alþingi var kosið. Og til eru þeir, sem segja að gamla stjórnarskráin hafi reynst vel – þó sennilega séu þeir miklu fleiri sem vilja breyta henni.“

Allar breytingar óþarfar?

„Þótt þjóðhöfðinginn segi það ekki berum orðum eru rök hans á þann veg að eigi að breyta stjórnarskrá í veigamiklum atriðum verði að gera það áður en nýr forseti er kjörinn svo að bæði forsetaefnin og fólkið í landinu viti hvernig stjórnskipunin sé þegar forsetaskiptin verða. Um leið megi alls ekki gera neitt í óðagoti. En hvað þýðir þetta?, segir Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við HÍ. „Taki nýr forseti við á næsta ári hljóta kjósendur að hafa í huga að vel megi vera að stjórnarskrá verði breytt verulega í embættistíð hennar eða hans. Manni sýnist helst að forseti telji í raun allar breytingar á stjórnarskrá óþarfar. Það væri í samræmi við fyrri orð hans þegar hann lýsti stjórnarskránni frá 1944 sem listilegri smíð, án hnökra svo nokkru næmi. Hitt er auðvitað umhugsunarefni að samkvæmt þeirri stjórnarskrá lætur forsetinn ráðherra framkvæma vald sitt, eins kjánalega og það hljómar nú í raunveruleika samtímans, og þessir sömu ráðherrar hafa lýst yfir áhuga á því að kosningar um breytingar á stjórnarskrá fari fram samhliða forsetakosningum. Það væri því áhugavert að heyra sjónarmið þeirra frekar en sagnfræðingsins í þessum efnum., segir Guðni.

300 milljónir í kosningar

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir rúmlega 311 milljóna króna kostnaði ríkissjóðs við kosningar til embættis forseta Íslands, komi til þeirra. Enginn kostnaður fellur til verði forseti sjálfkjörinn í embætti.

Hvergi er vikið að þjóðaratkvæðagreiðslu vegna stjórnarskrárbreytinga í frumvarpinu. Vegna anna var ekki hægt að fá svör við því í innanríkisráðuneytinu í gær hvort aukakostnaður hlytist af ef samtímis yrði kosið til forseta og um stjórnarskrána.

Samkvæmt lögum fellur nú allur kostnaður við forsetakosningar á ríkissjóð, en áður greiddu sveitarfélög fyrir störf kjörstjórna auk þess að leggja til húsnæði undir kjörfundi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert