„Megum við vera mennsk í friði?“

Flóttafólk úr röðum jasída fer yfir landamærin að Sýrlandi.
Flóttafólk úr röðum jasída fer yfir landamærin að Sýrlandi. Photo: AFP

Þórunn Ólafsdóttir einn helsti skipleggjandi samstöðufundarins um flóttamenn sem haldinn var í dag á Austurvelli var sjálf ekki á meðal mannfjöldans þar sem hún er sjálfboðaliði við móttöku flóttafólks á grísku eyjunni Lesbos. Þórunn sendi því kveðju á fundinn í dag þar sem hún þakkaði fólki fyrir að mæta og sýna samstöðu. Þá biðlaði hún til stjórnvalda um að fá leyfi til þess að taka á móti fleiru flóttafólki.

„Takk fyrir að vera hér í dag, fyrir að vilja búa til betri og öruggari heim. Daglega koma hundruðir og suma daga þúsundir manns hingað til Lesbos á flótta undan stríðsátökum. Hópur fólks hefur komið sér saman um að hjálpa þeim, en oft eigum við næstum ekkert til að gefa nema kærleikann. Hann skal þó ekki vanmeta. Kærleikurinn er allra tilfinninga máttugastur, og hefur borið marga hér yfir hafið í vinum öruggara líf fyrir ástvini sína. Á ögurstundu gerir fólk nefnilega allt fyrir það sem það elskar. Ég myndi líka reyna að bjarga fjölskyldunni minni og ástvinum undan sprengjuregni á allan mögulegan hátt. Rétt eins og þið sjálf.“

„En fáum við leyfi, kæru stjórnvöld?“

Þá minntist Þórunn orða Filippu sem er fer ásamt manni sínu og dóttur fyrir hjálparstarfinu við ströndina.

„Filippa er ótrúleg kona sem sem ásamt manni sínum og dóttur fer fyrir hjálparstarfinu niðri við ströndina. Þau hafa bjargað mörgum mannslífum og létt tilveru svo margra. Þegar ég kom hingað fyrst sagði hún eftirfarandi orð sem ennþá sitja í mér. „Þegar báturinn kemur að landi reyni ég alltaf að láta þau finna að þau séu velkomin. Því þegar þau yfirgefa okkur veit ég ekki hvenær þau næst munu upplifa það. Þá vona ég að við höfum gefið þeim smá von, að þau muni að þau voru einhvers staðar velkomin.“ Gerum eins og Filippa. Alltaf, alls staðar.“

„Við erum öll saman í þessu og ég hlakka til að segja blautu og köldu, örvæntingarfullu flóttafólki að það sé velkomið heim til mín. Að þar bíði mörg misstór herbergi með rúmum og hlýju. Að þar bíði fullt að stórum hjörtum eftir að fá að kynnast þeim.“

„En fáum við leyfi, kæru stjórnvöld? Megum við vera mennsk í friði fyrir ykkur? Megum við hjálpa þeim? Kæru öll, takk fyrir að koma. Takk fyrir að skilja, vilja og gera. Heimurinn er betri þegar við öll gerum eitthvað. Heimurinn er betri af því að þið komuð. Kærleikskveðjur frá Lesbos.“

Frétt mbl.is - Raunverulegt fólk á bak við orðin

Austurvöllur í dag.
Austurvöllur í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert