„Snýst um að bjarga lífi fólks“

Austurvöllur í dag.
Austurvöllur í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrr í dag lögðu nokkur hundruð manns leið sína á Austurvöll til þess að sýna flóttafólki samstöðu. Markmið fundarins var að láta þá sem nú flýja stríðsátök vita að fólkið í landinu standi með þeim og að bjóða flóttafólk velkomið. Dagurinn er haldinn víða um Evrópu.

Mbl.is kíkti við og tók púlsinn á fólki. 

Maríanna Klara Lúthersdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir.
Maríanna Klara Lúthersdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Ilmur Kristjánsdóttir og Maríanna Klara Lúthersdóttir

Af hverju ertu hér í dag?

„Ég er hér til þessa að sýna samstöðu með flóttamönnum, sýna þeim að við tökum þeim opnum örmum og hitta fólk sem vill gera það sama og viðhalda þessum krafti og þeirri vakningu sem hefur orðið í samfélaginu.“

Hvað viltu helst leggja áherslu á?

„Ég er meira svona bregðumst við og reddum svo í stað þess að vera endalaust að tala og tala. Ég veit að við getum þetta og þurfum að halda vel utan um þetta. Það kostar þessa meðvitund og til þess eru svona fundir og umfjöllun. Þetta er ekki ósamrýmanlegir hlutir að gera vel við fólk sem býr nú þegar á landinu, þetta snýst um að bjarga lífum fólks.“

Ilmur er með aukaherbergi heima hjá sér og hefur boðist til þess að hýsa flóttafólk. „Ég er til í að taka inn á mig fjölskyldu.“

Þá segir Ilmur að með því að fá flóttafólk inn í landið sé þjóðin að fá hingað mikinn mannauð. „Það hefur sýnt sig að það besta sem við gerum fyrir samfélagið er að taka að okkur pólitíska flóttamenn. Þetta er fólk sem er með mikinn kraft, hefur lent í ýmsu sem gefur þeim frumkvæði, það hefur mikinn lífskraft og oft mikla menntun. Eins og Maríanna vinkona mín var að segja, af hverju leggjum við ekki pening í þetta í staðinn fyrir stóriðju við eigum eftir að fá mun meiri hagvöxt úr þessu en stóriðju.“

Maríanna Klara Lúthersdóttir segir að kostnaðurinn sem fari í hvern hælisleitanda sé fyrst og fremst launakostnaður til alls konar fagfólks og væntanlega byggingakostnaður til að byggja íbúðir fyrir þau. „Ég sé ekki betur en að þetta sé eitthvað sem er mjög kærkomið fyrir okkur Íslendinga og miklu meira atvinnuskapandi en stóriðja sem er að mesta lagi tuttugu störf.“

Úlfhildur Ragna Arnarsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.
Úlfhildur Ragna Arnarsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Vigdís Hrefna Pálsdóttir

Af hverju ert þú hér í dag?

„Ég vil sýna samstöðu með fólki sem er að flýja heimkynni sín. Það er ekkert nema sjálfsagt að bjóða fólk velkomið hingað til Íslands og fagna því að fólk hafi áhuga á því að búa hér og byggja upp samfélag með okkur og verða Íslendingar hér með okkur. Ég held að íslenskt samfélag hefði gott af því að fá fleiri. Þá berum við einnig ábyrgð gagnvart náunganum að bjóða hjálparhönd.“

„Ég tel að við eigum að opna samfélagið og ég held að Íslendingar séu mjög vel aflögufærir til að styðja flóttamenn bæði með húsnæði, fatnaði, matargjöfum og ekki síst kærleika. Mér finnst að ríkisstjórnin og almenningur eigi að taka vel á móti þeim.“

Úlfhildur Ragna Arnardóttir, 10 ára.

Hvað vilt þú gera til að hjálpa?

„Mig langar að vera hérna og hugsa vel til þeirra sem eru að flýja heimili sitt.“

Sæmundur Helgason.
Sæmundur Helgason. mbl.is/Styrmir Kári

Sæmundur Helgason

Af hverju ert þú hér í dag?

„Ég hér til að sýna samstöðu þessu brýna verkefni, að það sé siðferðileg skylda okkar að huga vel að fólki í mikilli neyð. Ég vil leita þeirra leiða sem mögulegar eru til að hjálpa þessu fólki og velta öllum steinum sem mögulegir eru í því samhengi.“

Camilla Bach.
Camilla Bach. mbl.is/Styrmir Kári

 

Camilla Bach, skiptinemi frá Danmörku

Af hverju er þú hér í dag?

„Ég er hér í dag vegna þess að þetta er mikið vandamál í allri Evrópu og svo virðist sem stjórnmálamenn séu ekki sammála almenningi um það hvað sé hægt að gera í stöðunni. Mér finnst eins og stjórnmálamenn hafi ekki áhuga á því að bjóða flóttamenn velkomna en það er vandamál víða í Evrópu. Maður sér að fólkinu í landinu langar til að hjálpa og bjóða flóttamenn velkomna. Ég held að fólk á Íslandi sé sérstaklega hjálpsamt en ég sá Facebook- síðuna Kæra Eygló Harðar-Sýrland kallar.“

„Ég myndi gjarnan vilja hýsa flóttamenn en því miður hef ég ekki pláss til þess.“

Þuríður Pétursdóttir.
Þuríður Pétursdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

 

Þuríður Pétursdóttir

Af hverju ert þú hér í dag?

„Ég vil að við gerum allt til þess að reyna að leysa þennan flóttamannavanda. Það er nauðsynlegt að leggja fé til þess að aðstoða þetta fólk sem þegar er á flótta. Við gerum alltof lítið, alveg afskaplega lítið.“

„Það er raunveruleg ástæða til þess að taka á móti eins mörgum og við mögulega getum vegna þess að við erum alltof fá hér á Íslandi til þess að reka almennilegt þjóðfélag. Við þyrftum að vera að minnsta kosti hálf milljón eða helst upp undir milljón til þess að samfélagið geti fúnkerað vel. Það er örugglega fullt af velmenntuðu fólki í hópi flóttamanna sem við þurfum nauðsynlega á að halda.“

„Ég vil fyrst og fremst að við göngum hraðar fram í því að afgreiða mál þeirra sem hingað koma af sjálfsdáðum og svo vil ég að við tökum á móti að ég myndi halda 100-150 manns á ári, bara standard til þess að hjálpa til. Ég hef tök á því að hýsa flóttafólk og geta hugsað mér það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert