Hátt í 10 virkir glæpahópar

mbl.is/Eggert

Lögregla telur að fimm til tíu hópar séu virkir á sviði skipulagðrar brotastarfsemi á
höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að þessir aðilar láta ekki eingöngu til sín taka á höfuðborgarsvæðinu og vísbendingar eru um aukin umsvif á landsbyggðinni.

„Um fjölda hópa þar skortir upplýsingar en flest bendir til að sé skipulagða hópa að finna utan höfuðborgarinnar hafi þeir yfirleitt og jafnvel alltaf tengsl við hópa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslu ríkislögreglustjóra um mat á skipulagðri brotastarfsemi.

Þar segir, að ljóst sé að hér á landi er að finna aðila, innlenda og erlenda, sem hagnast hafa verulega af skipulagðri brotastarfsemi, einkum fíkniefnaviðskiptum. Reynslan kenni að slíkir aðilar séu líklegir til að tengjast annars konar brotastarfsemi ekki síst peningaþvætti.

Íslenskur markaður með marijúana sjálfbær

Lögreglan telur að í vöxt færist að fullvinnsla fíkniefna fari fram hér á landi. Er þar um að ræða efni eins og amfetamín, e-töflur og jafnvel að einhverju marki kókaín. Ekki leiki vafi á að fíkniefni séu framleidd utan höfuðborgarinnar og þar fer fram skipulögð marijúana-ræktun. Er nú svo komið að íslenskur markaður með marijúana er sjálfbær. Innflutningur á þessum efnum virðist hafa lagst af. Nýjar kannanir bendi til þess að neysla maríjúana hafi aukist á síðustu árum samhliða þessari þróun.

Bent er á í skýrslunni, að margvíslegir brotaflokkar geta fallið undir hugtakið „skipulögð brotastarfsemi“. Þar beri helst að nefna stórfelld fíkniefnabrot, mansal, vændi, auðgunarbrot, tölvubrot og skjala- og skilríkjafölsun. 

Þau brot sem helst hafa verið á borði lögreglu eru framleiðsla og innflutningur fíkniefna, á sama tíma og farsímaþjófnaðir og tölvubrot hafa rutt sér til rúms. Lögreglan segir teikn á lofti um vinnumansal, ekki síst utan höfuðborgarinnar og ljóst sé að jafnan er hætta á skipulögðum þjófnuðum og innbrotum.

Þekktir brotamenn búa utan höfuborgarsvæðisins

Ljóst sé jafnframt að önnur skipulögð brotastarfsemi faí þrifist utan höfuðborgarsvæðisins t.a.m. vinnumansal og skipulögð auðgunarbrot. Upplýsingar skortir um umfang þessa. Þess séu dæmi að þekktir íslenskir brotamenn búi utan höfuðborgarinnar og hafi vopn og þýfi fundist í vörslu þeirra.

Í skýrslunni er m.a. bent á, að nokkrir aðilar standi fyrir umtalsverðri kannabisframleiðslu hér á landi. Þessir menn fái oftar en ekki aðra til sinna ræktuninni og hafi af henni verulegar tekjur. Sömu einstaklingar komi ítrekað við sögu í samstarfi mismunandi hópa.

„Oftast er um þrjá til fjóra menn að ræða sem koma að hverri ræktun og hefur hver sitt hlutverk, allt frá því að fjármagna þær yfir í að taka skellinn ef upp kemst. Í fyrri skýrslum greiningardeildar hefur verið fullyrt að íslenskir ríkisborgarar standi einkum að ræktun á marijúana. Svo er enn. Algengast er að ungir, íslenskir karlmenn standi að ræktunum. Tiltækar upplýsingar benda til þess að aldursdreifingin færist neðar. Nýliðun í framleiðslu og dreifingu fíkniefna virðist því hafa aukist. Jafnframt fjölgar þeim sem teknir eru oftar en einu sinni fyrir slík brot,“ segir í skýrslunni.

Þar er einnig fjallað um skort á frumkvæðisvinnu sem lögreglan rekur til niðurskurðar fjárveitinga. „Sú hætta er augljóslega fyrir hendi að starfandi hópar eflist af þessum sökum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka