Lögreglan á Íslandi er ekki fær um að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu vegna fjárskorts og manneklu, Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra þar sem fjallað er um mat á skipulagðri brotastarfsemi, en vísað er til þess að þetta sé almennt mat lögreglunnar hér á landi.
„Lögreglan er undirmönnuð og brýnt er að fjölga lögreglumönnum. Í áfangaskýrslu nefndar um gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland frá 8. mars 2013 sem innanríkisráðherra kynnti á Alþingi kom fram sú forgangsröðun að fjölga bæri almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit og styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum s.s. rannsóknardeildum sérdeildum sem starfa á landsvísu og í landamæradeild á Keflavíkurflugvelli. Auk þess að bæta búnað og þjálfun lögreglumanna,“ segir í lokaorðum skýrslunnar.
Í skýrslunni segir ennfremur, að við mat á stöðu lögreglunnar á landsbyggðinni, einkum með tilliti til frumkvæðislöggæslu, beri að hafa í huga að verkefnum þar fjölgi í takt við aukinn straum ferðamanna. Honum fylgi til dæmis aukinn fjöldi slysa auk þess sem iðulega fari fram tímafrek og krefjandi leit að týndu fólki. Slíkt kalli á mikla vinnu af hálfu lögreglunnar. Nefna megi til samanburðar að nú muni 24 landverðir starfa í Vatnajökulsþjóðgarði en lögreglumenn á Suðurlandi séu alls 34, á svæði sem nær frá Sandskeiði við Bolöldu austur fyrir Höfn í Hornafirði.
Þá eru fleiri dæmi um áskoranir lögreglu á landsbyggðinni nefnd. Bent er á að fjölda hafna á Austurlandi þar sem lítið sem ekkert eftirlit eigi sér stað sökum manneklu. Stærð umdæma hafi einnig áhrif á starfssemi lögreglu þar sem viðbragðstími hennar geti skipt sköpum.
„Almennt telur lögreglan á landsbyggðinni sig ekki færa um að halda uppi ásættanlegu öryggisstigi sökum fjárskorts. Ljóst er að þetta ástand mála er einkum að rekja til niðurskurðar á fjárveitingum til lögreglunnar á síðustu árum,“ segir í skýrslunni.
„Telji samfélagið umsvif skipulagðra brotahópa áhyggjuefni er ljóst að við þeirri stöðu mála verður ekki brugðist á annan veg en þann að frumkvæðisvinna lögreglu gagnvart slíkri starfsemi verði aukin. Þetta á við um fíkniefni, sem fyrr sagði, og einnig skipulagða brotastarfsemi sem tengist vændi og mansali. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur margt benda til þess að slík starfsemi fari fram innan umdæmis hennar en segir takmarkaða möguleika á frumkvæðisvinnu hefta upplýsingaöflun. Sömu sögu má segja um öll önnur lögregluumdæmi landsins,“ segir ennfremur.