Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það myndi koma honum á óvart fengi hann mótframboð á landsfundi flokksins sem fer fram í október. „Það kæmi mér á óvart,“ sagði Bjarni sem var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
„Það kæmi mér verulega á óvart ef ég fengi mótframboð í formanninn,“ sagði hann. „Það hefur enginn talað um það við mig, og mér þætti það, satt best að segja, dálítið einkennilegt á miðju kjörtímabili,“ sagði Bjarni.
Hann segir ennfremur að hann verði að sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins. „Mér finnst ég vera í miðri á, eða þannig séð. Við erum á miðju kjörtímabili og ég ber ábyrgð á stjórnarsáttmálanum og vil klára kjörtímabilið. Til þess að leiða það áfram þá vil ég gefa kost á mér áfram,“ sagði hann.
Bjarni var ennfremur spurður að því hvort hann myndi styðja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sækist eftir endurkjöri sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. „Mér finnst að ég eigi ekki að blanda mér í það. Það er nú mín skoðun. Og ég held að það sé engin hefð fyrir því að formenn flokksins séu að lýsa því yfir hverjir eru að gegna öðrum embættium. En ég hef sagt það að ég treysti mér til að starfa með Hönnu Birnu,“ sagði Bjarni.