„Ég hjóla gegnum miðbæinn á hverjum degi úr og í vinnu og það er mikill viðbúnaður á aðalbrautarstöðinni. Maður sér mikið af flóttamönnum koma þar,“ segir Auður Jónsdóttir. „Líka mikið af lögreglu en það fer allt mjög friðsamlega fram.“ Leið hennar liggur líka framhjá flóttamannaathvarfi þar sem mikill viðbúnaður er, en einnig mjög friðsamlegt. Þrátt fyrir allt er því til að gera ró í borginni.
Auður hefur verið búsett í München í 16 ár og vinnur fyrir ferðaskrifstofuna Katla Travel þar í borg.
„Í gærkvöldi komu svo margir að vinir okkar höfðu samband og þurftu dýnur og sængur því það kom fleira fólk en gert hafði verið ráð fyrir. Maðurinn minn og vinir hans fóru því með dýnur og sængur til að gefa flóttafólkinu,“ segir Auður.
Hún segir mikinn samhug í München. „Hér er friðsæl stemning og mikil hjálpsemi.“ Hún segist ekki gera sér fyllilega grein fyrir hvers vegna Þjóðverjar taka flóttafólki jafnvel og raun ber vitni og að sú sé reyndar ekki raunin um landið allt, en eins og fram hefur komið er sú afstaða ekki landlæg.
Frétt mbl.is: Hræddari í Þýskalandi í Sýrlandi
Borgarstjóri München kom fram í þýska sjónvarpinu í gær og sagði fjölda flóttamanna vera orðinn slíkan að ekki væri lengur hægt að taka á móti flóttafólki á manneskjulegan hátt og að fleiri fylki landsins en Bayern yrðu að taka á móti flóttafólki. Hún segist ekki hafa orðið vör við breytingu á andrúmsloftinu eftir að landamærum landsins til Austurríkis var í reynd lokað. „Ég fór auðvitað síðast þarna um í gær og þá streymdi fólk enn inn til landsins. Ég þarf að sjá á morgun hvernig þetta er þá.“
Frétt mbl.is: Meiri gæsla í München en Ísrael
Hún sagðist ekki kannast við að venjulega væri mikil öryggisgæsla á flugvellinum í München og að fregnir af hertri öryggisgæslu þar kæmu henni í raun á óvart. „Hingað til hefur allt farið vel fram,“ segir hún, og kannast ekki við að flóttafólki hafi verið mótmælt í borginni.
Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, verkfræðinemi í München segir áberandi hvað fólk sé tilbúið að gefa tíma sinn og það sem flóttafólk þarf nauðsynlega á að halda.
„Ég hef það á tilfinningunni að munurinn á þjóð eins og Þjóðverjum annars vegar og Íslendingum hins vegar er að þeir þekkja það á eigin skinni hvernig það er að vera tekin úr eigin húsi, vinnu og frá fjölskyldu og vinum og hótað með þeim afleiðingum að þurfa að flýja með einn bakpoka,“ segir hún. „Eða tengja að minnsta kosti við þær aðstæður. Á meðan búum við Íslendingar í svo rosalega verndaðri sápukúlu að við skiljum ekki neyð þeirra sem um ræðir,“ segir Ragnheiður Björk.
„Þeir Íslendingar sem eru hvað mest á móti því að við tökum á móti flóttafólki ættu að reyna að setja sig í þeirra spor.“ Hún er stödd á Íslandi sem stendur en segir að það verði sitt fyrsta verk þegar hún fer aftur til München, hafi ástandið ekki batnað, að bjóða fram krafta sína til að aðstoða flóttafólkið. Hún segir hins vegar mikilvægt að Evrópulönd horfi líka á rót vandans og geri hvað þau geta til að stöðva átökin í Sýrlandi.
Auður bætir við að Þjóðverjar hafi mikla reynslu af því að taka á móti flóttafólki. Þegar stríðin geisuðu á Balkanskaga hafi mikill fjöldi fólks þaðan flúið til Þýskalands. Hún segir þrátt fyrir allt umræðuna mjög yfirvegaða og manneskjulega. „Borgarstjórinn talaði um að það væri í raun ekki hægt að finna húsaskjól fyrir flóttafólkið og að einhverjir þyrftu þá að sofa úti. Fólk á að vera velkomið en fólk er núna hreinlega sofandi á umferðareyjum,“ segir hún. „Það er samt ótrúlega fallegt að sjá þetta. Læknar, lögreglumenn og almennir borgarar að gera allt hvað þau geta,“ segir Auður.