Sprenging í komu hælisleitenda

AFP

Neyðin er núna, segir Solveig Sveinbjörnsdóttir, sem hefur víðtæka reynslu í málefnum flóttamanna. Hún segir neyðaraðstoð þurfa að koma strax. Ekki sé nóg að undirbúa komu kvótaflóttamanna þegar nú þegar streymi fjöldi fólks til landsins í sárri neyð. Þorsteinn Gunnarsson hjá Útlendingastofnun segir að þrjátíu manns hafi komið það sem af er september og sér ekki fyrir endann á hælisleitendum. Mikil vinna er því framundan að sinna þessu fólki.

Íslendingar munu taka við ákveðnum fjölda flóttamanna og hefur mikið verið rætt um hver sú tala ætti að vera. Það eru svokallaðir kvótaflóttamenn sem við munum vita fyrir fram um og geta undirbúið komuna með einhverjum fyrirvara. Annað er upp á teningnum með flóttamenn sem koma hingað af sjálfsdáðum með flugi frá Evrópu. Fjölda fólks sem streymir hingað daglega þarf að taka á móti og gefst þá ekki tími til mikils undirbúnings. Þeir sem koma hingað sjálfir þurfa að sækja um hæli og fá þá stöðu hælisleitanda. Síðar er þá skoðað hvort þeir uppfylli kröfur um að fá alþjóðlega vernd. Hvort sem það eru hælisleitendur eða skipulagðir flóttamannahópar er ljóst að fólkið sem kemur hingað þarf aðstoð, og það strax.

Neyðin er núna

Solveig Sveinbjörnsdóttir hefur víðtæka reynslu af flóttamönnum, en hún hefur unnið við neyðaraðstoð víða um heim. Hún er með meistaragráðu í friðar- og átakafræðum þar sem hún lagði áherslu á barnavernd. Hún vann lengi í Eþíópíu í flóttamannabúðum þar sem 50 þúsund flóttamenn frá Súdan héldu til í tjöldum. Í Sýrlandi vann Solveig við neyðaraðstoð þegar Írakar flúðu þangað í Íraksstríðinu, en 1,2 milljónir Íraka flúðu til Sýrlands. Solveig segir að fólk leiti oft til nágrannaríkja þegar það sé í neyð. „Þó að þetta séu ekki nágrannaþjóðir okkar höfum við meiri möguleika því að við erum betur sett sem þjóð. Við skynjun stundum ekki neyðina fyrr en þetta er komið alveg upp að okkur, til dæmis núna þegar við sjáum að fólk er að drukkna í Miðjarðarhafinu. Þá tökum við loksins við okkur, þegar þau eru komin inn á meginlandið. En í rauninni er neyðin löngu til staðar. Og því segi ég, af hverju erum við ekki löngu búin að aðstoða? Ég sé þetta sem neyð sem þarf að grípa inn í og það er til verklag hvernig á að vinna í neyðaraðstoð, sem Flóttamannastofnun vinnur eftir, UNICEF og öll þessi samtök. Af hverju erum við ekki að skoða þetta verklag og taka það upp líka? Það er fullt af þekkingu hérna. Í neyðaraðstoð er ekki hægt að hafa allt tilbúið einn tveir og tíu en við þurfum að vinna hratt. Mér finnst umræðan hér vera að við þurfum að vera undirbúin og tilbúin en er það raunhæft? Við getum ekki sagt við drukknandi mann að við eigum eftir að smíða bátinn. Það snýst ekki bara um að skipuleggja fyrir fólk sem kemur 2016. Það er fólk að koma núna, það er straumur af fólki að koma þó að það sé ekki skipulagt.“

Martröð fólksins

Solveig segir að hjálpin sem fólkið þurfi sé mjög víðtæk. „Það þarf auðvitað að aðstoða fólkið en líka að vinna út frá rótum vandans og íslensk stjórnvöld þurfa að átta sig á því, það þarf að vinna í þessu á svo margan hátt. Það er gert ráð fyrir því að þetta fólk fari heim til sín þegar friður kemst á í heimalandinu, þótt það sé ekki alltaf raunin. En út á það gengur flóttamannaaðstoð. Það er verið að aðstoða fólk tímabundið og er það í raun vilji flestra að fara aftur heim,“ segir hún. „Áherslan núna hér er að við þurfum að bregðast hratt við. Þetta er gífurleg vinna og það þarf að huga að öllu, húsaskjóli, skólagöngu barna, heilbrigðisþjónustu. Við höfum miklu meiri burði til að taka á móti stórum hópi en nágrannaríki okkar,“ segir Solveig. „Ég skil svo vel fólkið, ég bjó einn vetur í Damaskus og það er rosalega kalt þarna. Ég get ímyndað mér að tilhugsunin að fara í annan vetur þar sé algjör martröð fyrir þetta fólk sem er í flóttamannabúðunum þarna,“ segir hún.

Þurfum að vera úrræðagóð

Solveig segir að Íslendingar ættu að horfa til nágrannaríkja til að ákveða hversu marga flóttamenn Ísland ætti að taka að sér og miða þá við höfðatölu til að vera sambærileg við aðrar þjóðir.

Almenningur á Íslandi hefur tekið við sér og margir boðið fram aðstoð sína, í formi húsnæðis, fatnaðar eða annarra tegundar hjálpar. Solveigu finnst að hægt væri að nýta það. „Það er þörf fyrir alls konar stuðning en spurning í hvaða formi það er sett fram. En það er allt hægt og við þurfum að vera úrræðagóð og finna einhverjar leiðir, eins og Rauði krossinn er sjálfsagt að gera,“ segir hún. „Við verðum að vinna hratt. Það þarf að bretta upp ermarnar og taka ákvarðanir og svo verður bara að endurskoða þær ákvarðanir þegar líður á. En það er ekki hægt að bíða þar til allt er fullkomið og klárt. Það þarf bara að ganga í málin,“ segir hún.

Það er allt brjálað að gera

Hátt í þrjátíu nýir hælisleitendur hafa komið til landsins á síðustu tíu dögum að sögn Þorsteins Gunnarssonar, sviðstjóra hjá Útlendingastofnun. Hann segir þeim hafa fjölgað mikið á síðustu dögum og vikum. „Það er allt brjálað að gera. Þetta er veruleg fjölgun og töluvert meira en við erum vön að sjá á svona skömmum tíma, þótt það sé þekkt að meiri umsvif séu á haustin,“ segir Þorsteinn.

Mikið álag er á starfsfólki, sem vinnur nánast dag og nótt. „Ég var til dæmis vakinn klukkan tvö í nótt því það komu þrír til landsins sem þurfti að koma í hús,“ segir hann. „Síðasti mánuður var sá stærsti sem ég hef séð síðan ég hóf hér störf og hef ég verið hér í átta ár,“ segir Þorsteinn, en september verði stærri en ágústmánuður. „Okkar tilfinning er sú að þetta muni halda áfram og stefnir í að þetta verði stærri mánuður en sá síðasti. Það væri óvarlegt að halda öðru fram,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert