„Við erum bara að leita að nýju heimalandi. Leita að öruggum stað fyrir okkur og börnin okkar. Við erum að leita að betri framtíð vegna þess að í Sýrlandi bíður okkur engin framtíð,“ sagði sýrlenskur fjölskyldufaðir í Kastljósi kvöldsins um flótta hans, konu sinnar og barna á gúmmíbát yfir miðjarðarhaf, í gegnum ofbeldi í Ungverjalandi og alla leið til Íslands.
Rætt var við aðra af tveimur sýrlenskum flóttamannafjölskyldum sem komu til Íslands fyrir tveimur vikum síðan í Kastljósi. Fjölskyldunni hefur verið komið fyrir í Æsufellinu í Breiðholti til bráðabirgða og deilir hún íbúð með annarri sýrlenskri fjölskyldu.
Fjölskyldan hóf för sína í Sýrlandi og fór í gegnum Líbanon til Tyrklands. Þaðan sigldi hún á litlum gúmmíbáti til Tyrklands
„Það voru miklar líkur á að við myndum drukkna,“ sagði fjölskyldufaðirinn, Aisar Naqur. „Við höfðum ekkert val við urðum að taka þessa áhættu. Hætta lífi okkar til að lifa.“
Við tók langt og strangt ferðalag til Makedóníu og þaðan til Serbíu. Frá Serbíu fór fjölskyldan fótgangandi til Ungverjalands. tók sá hluti ferðarinnar næstum tvo sólarhringa en þar var ekki vel tekið á móti þeim.
Ungverska lögreglan handtók fjölskylduna og sagði Aisar dvölina í Ungverjalandi hafa verið versta hluta flóttans.
„Það sem við upplifðum var næstum því jafn slæmt og stríðið í Sýrlandi og hryðjuverkin þar.“ Aisar og kona hans störfuðu bæði sem kennarar í Sýrlandi og lýsa þau sér sem ósköp venjulegu fólki.
„Ég get varla rifjað þetta upp, ég hugsa bara til barnanna minna. Í fimm daga var komið fram við okkur eins og dýr,“ sagði Inas Abuhasson, eiginkona Aisar.Hún sagði það erfiðasta hafa verið að hafa ekkert annað en handklæði til að breiða yfir börnin sín þegar þeim var kalt en börnin tvö, eru drengur á grunnskólaaldri og táningsstúlkan Alisa Naqur.
„Geturðu ímyndað þér, þegar barnið þitt segir „Mamma ég er svangur“ og þú getur ekki gert neitt í því?“
Fjölskyldan var allslaus og án matar í fjóra sólarhringa á sérstöku móttökusvæði fyrir flóttamenn í Ungverjalandi en fjölskyldunni leið ekki eins og hún væri í flóttamannabúðum heldur í fangelsi. Aisar kveðst hafa sagt við lögregluna að þetta væri ekki Evrópa og spurt afhverju það væri komið svona fram við þau.
„Þeir tóku okkur og í fjóra daga vorum við látin vera í fangelsi, ekki í flóttamannabúðum. Þegar ég benti þeim á að þetta væri fangelsi var ég barinn með prikum en ég hafði ekkert gert. Við vorum á flótta undan stríðinu, við erum ekki glæpamenn“
Það var fjölskyldunni til happs að hitta túlk sem hjálpaði þeim við þýðingu á flóknum gögnum. Eftir að ungversk yfirvöld fengu gögnin í hendur var fjölskyldan frjáls ferða sinna. Þau greiddu um 230 þúsund krónur fyrir far með litlum bíl til Austurríkis þaðan sem þau keyptu farmiða til Íslands eftir nær mánaðarlangan flótta.
Sagði Inas að það hafi verið eins og draumur hafi ræst því hér geti börnin þeirra átt sér framtíð. Undir þetta tekur Alisar, dóttir hjónanna.
„Maður þarf að vera sterkur og ég var sterk. Það var mjög erfitt fyrir stelpu á mínum aldri að ganga í gegnum þetta en ég setti mér markmið að komast til Íslands og þá var framtíðin björt. Hér bíður mín framtíð og hér get ég lifað.“
„Við biðjum ekki um neitt meira en að fá að vera á Íslandi, fá að vinna á Íslandi. Vonandi fáum við svo að sýna að við erum duglegt fólk,“ sagði Aisar að lokum.