Ekki náðist samstaða á neyðarfundi

Ólöf Nordal innanríkisráðherra var stödd á neyðarfundi innanríkisráðherra Evrópuþjóða.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra var stödd á neyðarfundi innanríkisráðherra Evrópuþjóða. mbl.is/Golli

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, segir í samtali við mbl.is að neyðarfundur innanríkis- og dómsmálaráðherra Schengen ríkja sem haldin var í dag að meirihluti Evrópusambandsríkja hefði samþykkt að taka við 160.000 flóttamönnum en að fundurinn hafi  ekki getað komist að niðurstöðu um hversu marga flóttamenn hvert ríki eigi að taka við.  „Það voru skiptar skoðanir á fundinum um hvernig ætti að nálgast  þennan bráðavanda sem blasir við þeim ríkjum sem hafa fengið mikið af fólki til sín, þá er ég að tala um Grikkland, Ítalíu og Ungverjaland. Helsta umræðuefni fundarins var hvernig ætti að létta á byrðum þessara ríkja.“

„Það lá fyrir fundinn umræðuskjal um að ríki Evrópusambandsins myndu skipta með sér þeim 160.000 einstaklingum sem núna eru í þessum þremur löndum og það náðist ekki samstaða um hvernig þetta ætti að gerast.“

„Meirihluti Evrópusambandsþjóða samþykkti að taka við þessum 160.000 einstaklingum, en það var gert með meirihluta atkvæða en ekki með sameiginlegri niðurstöðu. Íslendingar eru ekki aðilar að þessu,“ segir Ólöf og bætir við að fundurinn hafi verið þungur og mikil alvara ríkt á honum, vandinn reyni mikið bæði á Schengen samstarfið og Evrópusambandsþjóðirnar í heild sinni.

Samstaða um að herða ytri landamærin

Ólöf segir að almenn samstaða hafi verið um að herða ytri landamæri Schengen sem hafa verið að bresta að undanförnu. „Það voru tillögur um að það þyrfti að útfæra nánar hvernig ætti að herða á ytri landamærunum,“ segir Ólöf.

Þá segir hún að fundurinn hafi sýnt  að ekki sé hægt að skylda ríki til þess að taka við ákveðnum fjölda flóttamanna. „Þessi fundur virtist leiða það í ljós að það verður engin skylda lögð á ríkin, það verður reynt að semja við ríkin og þau munu veita upplýsingar um hvað þau geta gert,“ segir Ólöf

Annar fundur þann 8. október

Ákveðið hefur verið að halda annan fund þann 8. október meðal innanríkis- og dómsmálaráðherra Evrópuríkja til þess að ræða málefni flóttamanna frekar. Ólöf segir að Ísland muni sækja þann fund og halda áfram að fylgjast mjög náið með því sem fer fram á vettvangi Evrópusambandsins þegar kemur að flóttamannamálum.

Hún segir að Evrópuríkin vilji leggja áherslu á að vandinn sé ekki einungis vandi Evrópu heldur heimsbyggðarinnar allrar og að komið hafi til tals að Bandaríkin, Kanada og löndin sem liggja nálægt stríðshrjáðu svæðunum leggi sitt af mörkum. Ennfremur að hún hafi greint frá því að Ísland hafi vilja til þess að taka við eins mörgum flóttamönnum og innviðir landsins þoli og að mikill skilningur hafi verið fyrir þeirri afstöðu. Aðspurð segir hún að ekki hafi verið rætt um það hvort að endurskoða ætti Dyflinnar-reglugerðina, málin séu ekki komin svo langt.

Aukinheldur segir hún til standi að útbúa lista yfir svokölluð „örugg lönd“ þar sem lönd utan átakasvæða eru skilgreind þannig hægt verði að forgangsraða og setja einstaklinga sem koma frá átakasvæðum í forgang.

Ungverjar hafa byggt upp gaddavírsgirðingu til þess að halda flóttamönnum …
Ungverjar hafa byggt upp gaddavírsgirðingu til þess að halda flóttamönnum frá landinu. AFP
Lögreglumenn fylgja nýkomnum flóttamönnum um götur Munchen borgar í Þýskalandi.
Lögreglumenn fylgja nýkomnum flóttamönnum um götur Munchen borgar í Þýskalandi. AFP
Innanríkisráðherrar Frakklands og Þýskalands héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag vegna …
Innanríkisráðherrar Frakklands og Þýskalands héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag vegna flóttamannavandans. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert