Kastaði staurnum til sigurs

Heiðar með staurinn í lúkunum.
Heiðar með staurinn í lúkunum. Ljósmynd/ Rúnar Geirmundsson

Íslandsmeistaramótið í staurakasti fór fram í Laugardalnum í dag en sú óvenjulega íþrótt gengur út á að kasta stórum og þungum staur eins og nafnið gefur til kynna. 

Íslandsmeistari varð Heiðar „Heisi“ Geirmundsson sem sneri 6,5 metra löngum og 60 kg þungum staurnum þrisvar sinnum yfir í jafnmörgum tilraunum. Fékk hann einkanirnar 12:00, 12:02 og 12:01 fyrir vikið en einkunninn 12:00 gefur til kynna að staurinn hafi fallið beint áfram eftir að hafa snúist.

Segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum mótsins að Heiðar sé nú að undirbúa sig fyrir stór-hálandaleika í New Hampshire í Bandaríkjunum sem fram fara næstu helgi þar sem hann mun keppa við nýbakaðan heimsmeistara í greininni, Daniel McKim ástamt átta öðrum hálandakösturum sem teljast þeir bestu í heimi.

Í öðru sæti í staurakasti mótsins varð Guðni Valur Guðnason og Stefán Árni H. Guðjohnsen náði því þriðja. Óðinn Björn Þorsteinsson endaði í fjórða sæti og Birgir Sólveigarson í því fimmta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka