Aðildarríki ESB eru sammála um að deila alls 160 þúsund flóttamönnum á milli sín en eru ósammála um hvernig eða hvenær það á að gerast.
Það sagði þýski innanríkisráðherrann Tomas de Maziere í hléi sem gert var á ráðherrafundi um flóttamannavandann í Brussell. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra er fulltrúi Íslands á fundinum sem stendur enn yfir.
Danska ríkisútvarpið greinir frá því að de Maziere hafi þó nú þegar lýst yfir vonbrigðum sínum með fundinn þar sem ESB löndin vilja ekki styðja tillögu framkvæmdastjórnarinnar um að skipta flóttafólkinu á milli sín með kvótum. Deilan um kvótana heldur enn áfram.
„Þetta er hvergi nærri því sem við búumst við af evrópskri samstöðu. Þetta er ekki nóg,“ sagði de Maziere um niðurstöður fundarins hingað til. Hann sagðist þó vonast til að eining gæti náðst um kvótana á næsta fundi ráðherranna þann 8. október.
DR greinir frá því að á fundinum hafi formleg ákvörðun um að deila ábyrgð á 40 þúsund flóttamönnum verið tekin en það er gert samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá því í maí. Af þeim 40 þúsund á enn eftir að ákvarða móttökuland fyrir hátt í 8.000 manns. Þá var einnig ákveðið að deila 120 þúsund flóttamönnum til viðbótar niður á ríkin, líkt og framkvæmdastjórnin lagði til en eins og áður segir er sú ákvörðun enn meira í orði en á borði þar sem enn er deilt um framkvæmd hennar.