Enn er bið á því að birt verði niðurstaða úr vinnu stýrihóps um mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Hópurinn átti upphaflega að skila niðurstöðum sínum í vor, en ekkert varð af því. Fyrir um hálfum mánuði var sagt að niðurstöðurnar yrðu kynntar á næstu dögum, en samkvæmt svari sem vefurinn Túristi.is fékk í dag er stefnt að kynningu síðar í þessum mánuði.
Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiðir verkefnið, en hún var skipuð af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála. Auk Guðfinnu eru í stýrihópnum ferðamálastjóri og formaður og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.