Fjórtán þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að móta opinbera klasastefnu. Fyrsti flutningsmaður er Willum Þór Þórsson, þingmaður framsóknarmanna, en tillagan var einnig flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá.
„Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir,“ segir í tillögunni. Vísað er í skilgreiningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á klasa sem sé „landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu.“
Fram kemur í greinargerð að ýmsar rannsóknir og skýrslur staðfesti að klasasamstarf sé vænlegt tæki til að efla nýsköpun og samkeppnishæfni smærri og meðalstórra fyrirtækja. „Klasasamstarf hefur því í auknum mæli verið nýtt til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar um allan heim og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun í nútíma klasastjórnun enda skiptir nýsköpun sköpum í langtímauppbyggingu atvinnugreina.“
Ennfremur er bent á að á hinum Norðurlöndum hafi verið tekin upp slík stefna. Norðmenn hafi farið athyglisverða leið í uppbyggingu opinberrar klasastefnu. Þar hafi stefnan verið unnin að frumkvæði norsku ríkisstjórnarinnar undir forustu tveggja ráðuneyta og lögð áhersla á þrenns konar klasaform; héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa. Danir hafi sömuleiðis tekið upp opinbera klasastefnu og farið hliðstæða leið og Norðmenn.