Hugnast ekki miðstýring frá ESB

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Stjórnvöldum hugnast ekki að Evrópusambandið miðstýri því hversu mörgum flóttamönnum Ísland eigi að taka við. Þetta kom fram í máli Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Ríkisstjórnin hefði vilja til þess að taka á móti fleiri flóttamönnum en það yrði að vera á forsendum Íslands sem fullvalda ríkis.

„Við viljum taka þátt í þessu með nágrannalöndum okkar, Evrópuríkjunum, en hins vegar gerum við það náttúrulega á okkar forsendum. Og það kom til dæmis mjög skýrt fram í máli núna innanríkisráðherra sem sat fund í Brussel með öðrum evrópskum innanríkisráðherrum að við viljum sannarlega gera okkar, en við gerum það sem sagt á okkar forsendum sem fullvalda ríki en ekki vegna þess að Evrópusambandið segir okkur að gera það,“ sagði Eygló.

Spurð hvort ríkisstjórninni hugnaðist ekki sú aðferðafræði að því væri miðstýrt af Evrópusambandinu hversu mörgum flóttamönnum Ísland tæki við svaraði Eygló því játandi. Ríkisstjórnin hefði fullan hug á því að taka á móti fleiri flóttamönnum og leggja meira að að mörkum. Ísland færi ekki varhluta af flóttamannavandanum í Evrópu. Aukinn fjöldi hefði sótt um hæli hér á landi og fleiri umsóknir verið afgreiddar. Tekið hefði verið við tvöfalt fleiri flóttamönnum á fyrstu tveimur árum þessa kjörtímabils en gert var allt síðasta kjörtímabil.

Tekið við flóttamönnum sem næst Sýrlandi

„Við höfum hingað til tekið á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum þar sem við erum að horfa til þeirra landa sem hafa tekið á móti mestum fjölda flóttamanna, sem eru næst til dæmis eins og Sýrlandi. Höfum nú þegar verið í sambandi við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og þau hafa bent okkur sérstaklega til dæmis á flóttamannabúðirnar í Líbanon þar sem er gífurlega mikið álag á þetta litla land. Við teljum líka rétt að gera meira til þess að aðstoða þessi lönd og allan þann gífurlega fjölda fólks sem er þar,“ sagði ráðherrann og ennfremur:

„Það má ekki gleyma því að það eru oft sterkustu einstaklingarnir sem hafa burði til þess að fara í burtu meðan þeir sem eru í hvað mest viðkvæmri stöðu verða eftir, hvort sem við erum að tala um félagslega, fjárhagslega eða bara, eins og við höfum lagt áherslu á að taka á móti fólki sem að býr við heilbrigðisvanda og hefur þá bara einfaldlega ekki getu til þess að fara langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka