Samgöngumál voru á dagskrá Bbrgarstjórnar á fundi í dag, um þau spunnust töluverðar umræður en samgönguvika hefst á morgun. Tókust borgarfulltrúar á um hvort leggja ætti áherslu á að efla almenningssamgöngur og hjólreiðar eða hvort ætti að styrkja gatnakerfið og greiða fyrir notkun einkabílsins.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sagði m.a. að ósmekklegt hefði verið af Hjálmari Sveinssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, að rifja upp hversu mörg dauðsföll einkabíllinn hefði valdið í gegnum árin. Hjálmar mótmælti því harðlega og sagði það staðreynd að margir gangandi hefðu látist sökum áreksturs við keyrandi vegfarendur.
Kristín Soffía Jónsdóttir sagði hins vegar að það væri til marks um kynslóðabil, hversu pólaðar umræðurnar væru. Að yngri kynslóðir litu ekki svo á að annað hvort þyrfti að velja einkabílinn eða almenningssamgöngur og hjólreiðar.
Í tilefni af samgönguviku, sem er haldinn þann 16-22. september mun borgin m.a. standa fyrir ráðstefnunni Hjólum til framtíðar en einnig verður haldinn svokallaður Frídagur bílsins þar sem fólk er hvatt til að leggja einkabílnum og nota virkan samgöngumáta og upplifa borgina á þann hátt.