Fimm þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að koma ónýttum eða ósetnum jörðum í ríkiseigu í notkun og auka með því byggðafestu og atvinnumöguleika í dreifðum byggðum landsins. Sömuleiðis að greiða fyrir ábúendaskiptum á ríkisjörðum í því skyni að stuðla að markvissri búsetu og uppbyggingu þeirra.
„Það er mat flutningsmanna að ótækt sé að fjöldi jarða í ríkiseigu sé í eyði eða illa nýttur á sama tíma og nýliðun í landbúnaði er erfiðleikum bundin. Þá er þörf fyrir meiri matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á mjólkurvörum og nautgripakjöti, og sumar þessara jarða eru heppilegar til matvælaframleiðslu. Auk þess stækkar ört sá hópur til sveita sem sinnir þjónustu við ferðamenn og hægt kann að vera að skapa atvinnutækifæri og efla jaðarbyggðir með markvissri aðgerð sem þessari,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni sem flutt er í annað sinn.
Bent er á ungir bændur eiga í erfiðleikum með að hefja búskap þar sem bújarðir liggja ekki á lausu eða eru mjög dýrar. „Með því að koma jörðum í notkun mætti að nokkru leyti leysa vanda nýliðunar, auka matvælaframleiðslu, tryggja byggðafestu og bæta atvinnumöguleika. Þessi aðgerð er mikilvæg sem hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar um að efla byggð og matvælaframleiðslu.“
Fyrsti flutningsmaður er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, en aðrir flutningsmenn koma úr röðum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.