Mismunandi stofnanir ríkisins hafa verið að kaupa nákvæmlega sömu hlutina með jafnvel tuga prósenta verðmun og gætu sameiginleg innkaup og betri áætlanagerð ríkisstofnana strax sparað um 2-4 milljarða á ári. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á á morgunverðafundi sem var haldinn af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags forstöðumanna ríkisstofnana í dag.
Bjarni sagði að enginn myndi reka fyrirtæki með 190 innkaupastjóra, en það væri staðan í dag hjá stofnum ríkisins. Allir hefðu til dæmis mismunandi skoðanir á hvaða stóla eða aðrar vörur ætti að kaupa og það kæmi niður á mögulegu hagræði við stórinnkaup ríkisins á vörum og þjónustu.
Í dag er að sögn Bjarna mjög takmarkaðar upplýsingar um heildarkaup ríkisstofnana, en að miðað við greiningu sé ljóst að lækka megi innkaupaliðinn talsvert. Nefndi hann töluna 2-4 milljarða í því samhengi. Sagði Bjarni að sameiginleg innkaup væru lykillinn að hagræðingu sem þessari. Horfði hann svo út í salinn og sagði að einhverja ríkisforstjóra gæti hryllt við þessari tilhugsun og þetta gæti sannarlega leitt til meiri einsleitni. Þætti gæti þó líka leitt til gríðarlegs hagræðis.
Stærri og skipulagðari innkaupastefna kallaði að hans sögn á að því að meiri stöðlun yrði á stórum innkaupaliðum. Þannig nefndi hann að svona fyrirkomulag kæmi í veg fyrir að menn gætu verið að velja á milli Microsoft eða Apple umhverfis og að reynt yrði að samhæfa rafræna stjórnsýslu til muna, t.d. með tölvukerfum og fleiru.
Ekki virtust allir forstöðumennirnir hrifnir af þessum hugmyndum og sagði Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, að hann efaðist um „stóru ríkisstólastefnuna.“ Þannig væru forstöðumenn líklegri til að setja dýrari hluti á áætlun ef hún væri til margra ára, heldur en ef þeir þyrftu að komast af innan árs með miðað við fjárlög. Sagði hann að frekar ætti að horfa til þess að auka sveigjanleika stofnana þegar kemur að starfsmannamálum. Nefndi hann að Samgöngustofa hefði þurft að fara í sársaukafullar aðgerðir í þeim efnum á þessu ári vegna fjárlaga og einu ráðin hafi þá verið að fara í endurskipulagningu til að geta sagt upp starfsfólki. Sagði hann að minnka þyrfti mun á starfssamningum á opinbera- og einkamarkaðinum og búa til þennan sveigjanleika frekar en að koma upp svona innkaupastefnu.
Bjarni sagðist taka undir að auka ætti sveigjanleika, en að bætt innkaupastefna væri mikilvæg, „án þess að búa til ógurlegt innkaupaskrímsli.“ Sagði Bjarni að hægt væri að ná betri árangri með að nota sameiginlegan slagkraft ríkisins í innkaupum. „Held að lykillinn að góðri lausn sé að koma ekki á þunglamalegu kerfi heldur sveigjanlegu sem kreistir fram bestu kosti þess að stunda sameiginleg innkaup, en forðast að búa til mikið bákn,“ sagði Bjarni.
Á fundinum var einnig rætt um lágmarksstærð stofnana, en í erindi sínu nefndi Bjarni það á nafn. Var hann beðinn að skýra það atriði nánar og sagði hann þá að ekkert hafi verið fastsett í þessum efnum. Oft hefði þó heyrst að stofnanir ættu ekki að vera með færri en 30 starfsmenn og annarsstaðar að þeir ættu ekki að vera færri en 10. Sagði hann þetta matsatriði, en einnig væri hægt að horfa til þess hvernig hægt væri að nýta stoðdeildir fyrir fleiri stofnanir.
Nefndi Bjarni dæmi um Fjölmiðlanefnd, þar sem tveir starfsmenn væru. Sagði hann það vera dæmi um stofnun sem væri „ekki mjög burðugt apparat til að sinna þungum verkefnum.“
Með ákveðnum lágmarksviðmiðum sagði hann að hægt væri að koma í veg fyrir að litlar stofnanir, hvaða nafni sem þær væru nefndar, væru stofnaðar um hvert málefni í stað þess að nýta eða bæta við verkefni fyrri stofnana. Svaraði hann spurningu fundarmanna að hugmyndin væri þó ekki að setja svona kerfi á laggirnar til að fara í að leggja niður eða sameina allar þær stofnanir sem væru undir mörkunum í dag, nema að augljós ávinningur væri af því. Hugmyndin væri frekar að hafa einhverja heildarlöggjöf og viðmið þegar kæmi að mögulegri stofnun ríkisstofnana í framtíðinni.