Bóndi í Staðarbakka í Fljótshlíð fór heldur óvenjulega leið við leit að meri sem saknað var eftir leitir helgarinnar. Leitað hafði verið að hrossinu frá því á laugardag þegar það fannst í gær en það sleit sig laust þar sem það var fundið við kletta ásamt öðru hrossi.
Leitir fóru fram í Fljótshlíðinni um helgina í góðu veðri. Féð skilaði sér vænt af fjalli og tókst að safna því flestu. Líkt og mannfólkið fara kindurnar ólíkar leiðir og sást til sumra þeirra í allt að 1000 metra hæð í fjöllunum.
Leitarsvæðið er erfitt yfirferðarog mannskapnum skipt niður í nokkur svæði. Víða er hægt að fara um á hestum en tveir smalar urðu að skilja hross sín eftir í Botni þar sem þeir ætluðu um torfarið svæði.
Þegar mennirnir komu aftur til baka eftir hátt í fjórar klukkustundir hafði annað hrossið slitið sig laust. Hestarnir voru bundnir með löngu bandi í klett svo þær gætu gengið um og bitið gras. Gerðu smalarnir ráð fyrir því að hesturinn hefði leitað til byggða en svo reyndist ekki. Leitað var að honum á sunnudag, mánudag og þriðjudag en fannst hann ekki fyrr en á þriðjudag.
Eigendur hestsins fóru til leitar í gærmorgun og ætlaði Kristinn Jónsson, bóndi að Staðarbakka í Fljótshlíð, einnig að fara um svæðið á fjórhjóli. Þegar hann var að koma hjólinu fyrir á bílnum heyrði hann kunnuglegt hljóð í þyrlu Norðurflugs sem flaug yfir.
Stökk hann inn í húsið, fletti upp símanúmeri Norðurflugs og náði fljótlega tali af Birgi Ómari Haraldssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Honum fannst sjálfsagt að gera Kristni greiða, þ.e. biðja flugmann þyrlunnar að lenda á Flötum í Fljótshlíð og fljúga hring með hann í von um að finna hrossið.
Snorri Geir Steingrímsson, flugmaður Norðurflugs, sótti Kristinn og flugu þeir yfir leitarsvæðið. „Það tók okkur tíu mínútur að finna hestinn sem hafði sem betur fer komið sér yfir á miðjum grasbala,“ segir Kristinn. Hesturinn féll þó töluvert að landslaginu og því ekki endilega hlaupið að því að finna hann.
Kristinn kann Norðurflugi, Birgi og Snorra bestu þakkir fyrir aðstoðina. „Ég hef oft verið fljótur inn að afrétt, en aldrei svona fljótur,“ segir hann. Hrossið hafði tekið með sér bandið og flækst í því og hlaut við það smá skrámur. Kristinn segir það hafa verið í sjálfheldu og ekki víst að það hefði komist sjálft til baka.