Undanfarið ár hafa félagið Isavia og stjórnendur þess setið undir talsverðri gagnrýni vegna tafa á afgreiðslu fyrir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli, vandamála við öryggisleit og greiðslu félagsins á flugfargjöldum fjölskyldna yfirmanna. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segist þrátt fyrir gagnrýni geta horft stoltur um öxl til breytinga á síðustu fimm árum og að hann hafi aldrei hugað að því að segja af sér. Í samtali við mbl.is fer hann yfir þreföldun farþega um völlinn yfir 7 ára tímabil, „stóra markaðinn“ í austri, gagnrýnina og fyrirsjáanlegan skort á starfsfólki á Suðurnesjum á komandi misserum.
Samhliða uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarin ár hefur farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgað gífurlega, enda lang stærsti einstaki staðurinn sem ferðamenn fara í gegnum hér á landi, bæði fyrir þá sem vilja staldra við á landinu og þá sem ætla sér að ferðast áfram (svokallaðir „via-farþegar“). Í fjölmiðlum undanfarna mánuði hefur ítrekað verið talað um flöskuhálsa í þessu sambandi, bæði við innritun, en ekki síst í öryggisleitinni.
Björn Óli segir að starfsmenn Isavia heyri reglulega af þessari gagnrýni. Það sé þó ekki þannig að flugvöllurinn hafi sprengt allt utan af sér, heldur væri næstum hægt að tvöfalda farþegafjöldann ef flugi yrði dreift jafnt um daginn. „Ástæðan fyrir þessum hausverk og tilfinningu um að flugstöðin sé mjög full á ákveðnum tímum og jafnvel flöskuháls stafar ekki af því að flugstöðin getur ekki tekið á móti fleiri farþegum, heldur út af því að Wow og Icelandair eru komin með kerfi sem byggir á því að allar vélarnar þeirra lenda eiginlega á sama tímanum, á morgnana, seinni partinn og stundum á kvöldin. Það er þessi tími sem er flöskuhálsinn,“ segir Björn Óli, en flugfélögin tvö flytja flesta farþega hingað til lands.
Fjölgunin undanfarin ár hefur verið ævintýraleg og segir Björn Óli að árið 2009 hafi um 1,7 til 1,9 milljón farþega farið um völlinn. Stærstur hluti þeirra millilenti þá á vellinum án þess að koma inn í landið, eins og er enn í dag. Á þessu ári segir Björn Óli að áætlað sé að heildarfjöldi farþega verði um 4,8 milljónir, en á því næsta gæti fjöldinn „farið vel yfir 5 milljónir farþega og nálgast frekar 6 milljónir.“
Björn Óli segir að þessi aukni straumur ferðamanna hafi verið umfram áætlun og þannig komið talsvert í bakið á þeim, sérstaklega í vor og sumar. Þá hafi fjöldi smærri atriða ýtt undir tafir. Segir hann að gert hafi verið ráð fyrir um 12% fjölgun ferðamanna á háannatíma, en að allt stefni í að þeir verði um 20% fleiri en í fyrra. Vegna þessa þá hafi þurft að fjölga talsvert starfsmönnum í öryggisleit, umfram það sem hafi verið áætlað. Segir Björn Óli að bæði taki tíma að finna fólk og þá þurfi að þjálfa það upp í nokkrar vikur. Það sé því ekki hlaupið að því að bregðast við svona sveiflum á nokkrum dögum. Hann þakkar þó sérstaklega starfsfólki flugstöðvarinnar sem hafi verið til í að taka á sig aukna vinnu á þessum tíma til að halda öllu gangandi og það hafi bjargað miklu.
„Okkur tókst að halda árinu þó fólk sé að kvarta,“ segir Björn Óli, en til viðbótar við skort á starfsfólki átti að taka nýjar öryggisleitalínur í gagnið í byrjun sumars. Þær virkuðu hins vegar ekki sem skildi sem hægði á öllu öryggisleitarferlinu í um tvær vikur. Hann tekur þó fram að tekist hafi að halda biðtíma innan nokkuð ásættanlegs tímaramma, sérstaklega ef miðað er við marga flugvelli erlendis.
Í sumar kom svo upp orðrómur um að öryggisleitin á flugvellinum hefði fallið á öryggisprófi og því hafi allir starfsmenn verið sendir á námskeið sem hafi enn ýtt undir aukinn biðtíma. Björn Óli segir þetta í meginatriðum vera rangt. Þótt fyrirtækið tjái sig almennt ekki mikið um öryggismálin segir hann að mánaðarlega séu gerðar öryggisúttektir. „Sum próf ganga vel, önnur verr,“ segir Björn Óli og bætir við að ef það próf sem um er rætt hafi verið fall, þá hefði það þýtt að vopnaleit hér á landi væri ekki treyst í alþjóðlegu samhengi. Hann tekur fram að Isavia hafi ekki lent í því. Aftur á móti hafi þurft að „herða skrúfuna og skerpa á nokkrum atriðum.“ Starfsmenn hafi því verið sendir á nokkra klukkustunda námskeið, en Björn Óli segir að það hafi ekki haft áhrif á starfsemina þar sem það hafi verið tekið utan venjulegs vinnutíma.
Þessa dagana er sumarstarfsfólk á flugvellinum að láta af störfum. Björn Óli segir að vegna þess aukna fjölda ferðamanna sem hingað komi eða fari í gegnum flugvöllinn hafi þurft að mæta þessu með að ráða fólk í ágúst. Segist hann ekki muna eftir því áður. Segir hann að með aukinn starfsmannafjölda ætti flugvöllurinn að vera betur undirbúinn undir svona fjölgun og þá ætti ekki að þurfa að þjálfa allt starfsfólkið á nýju leitarlínurnar eins og gerðist í sumar.
Stækkun flugvallarins og uppgangur í öðru atvinnulífi á Suðurnesjum er farið að vera ákveðið áhyggjuefni fyrir forsvarsmenn flugstöðvarinnar. Björn Óli segir að það sé „slagur um starfsfólk á svæðinu,“ en hann bendir á að atvinnuleysi í sumar hafi aðeins verið um 3% þar. Segir hann að huga þurfi að þessu til framtíðar. „Hvernig getum við fengið fólk,“ segir hann og spyr hvort ýta þurfi undir flutning fólks til Reykjanesbæjar og nágrennis, eða búa til betri leiðir fyrir fólk að fara til og frá vinnu frá stór Reykjavíkursvæðinu.
Björn Óli bendir á að starfsmenn flugverndar hafi árið 2009 verið rétt rúmlega 100 talsins. Í dag er þessi hópur, sem sér meðal annars um öryggisleitina, orðinn rúmlega 300. Þá hafi þurft að fjölga á mörgum öðrum sviðum, eins og í tölvuþjónustu. Isavia er þó ekki nærri eini atvinnurekandinn í flugstöðinni. Björn Óli segir að þumalputtareglan sé að við hverja 1000 farþega bætist við 1 starfsmaður. Isavia sé með um 10% af því, en restin sé vegna verslunar, flugafgreiðslu, hleðslu, bílaleigu og annarrar þjónustu. Miðað við áætlun um að farþegum fjölgi um allt að 1 milljón á næsta ári má því sjá að starfsmönnum Isavia og annarra fyrirtækja gæti fjölgað mikið bara á næstu mánuðum.
Þetta kemur til viðbótar við aðra uppbyggingu á svæðinu að sögn Björns Óla, en hann segir að fyrir örfáum árum hafi verið vandamál með störf á Suðurnesjum. Nú sé hins vegar mjög mikið að gerast og nýliðun á atvinnumarkaði á svæðinu haldi ekki í við vöxt flugvallarins, hvað þá aðra starfsemi. „Það eru mjög spennandi tímar framundan fyrir sveitarfélögin,“ segir hann og bendir á að stærsti kosturinn sé að enn sé talsvert um tómt húsnæði á svæðinu sem gæti auðveldað þessa uppbyggingu.
Til að mæta allri þessari fjölgun ferðamanna hingað til lands undanfarin ár hefur Isavia undanfarið staðið fyrir talsverðum endurbótum og stækkun á flugvellinum. Til viðbótar við það eru nokkur verkefni fram undan og í raun stórt framtíðarplan sem gengur undir nafninu „masterplanið.“
Nýlega var klárað er að lengja suðurbygginguna til austurs, en suðurbyggingin er tengibyggingin sem byggð var um aldarmótin. Þá hafi hlaðkerfið fyrir utan flugstöðina verið bætt og bætt við flugvélastæðum sem eigi að geta aukið afköst flugstöðvarinnar. Þá var í fyrra klárað að endurbæta verslunarsvæðið. Björn Óli segir að ljóst sé að verið sé að „hlaupa á eftir þrýstingi, en að þrýstingurinn sé líka gígantískur.“
Til að takast á við meiri fjölgun farþega segir Björn Óli að hefja þurfi framkvæmdir við frekari stækkun á ákveðnum stöðum og þegar sé komið grænt ljós á milljarða framkvæmdir á næsta ári. Þar sé um að ræða stækkun farangurslokunarkerfisins þar sem töskur fari inn og þá sé stefnt á að stækka farangursmóttökuna, bæði með auknu plássi og stækkun farangurslína.
Samkvæmt hugmyndum í „masterplaninu“ eru hugmyndir fyrir næstu ár að flugstöðina til norður, þar sem nú er Þotuhreiðrið og út á bílastæðin. Björn Óli segist vonast til þess að hægt sé að byrja undirbúning þeirrar byggingar núna í haust og að byrjað verði að grafa á næsta ári. Sú bygging gæti orðið klár árið 2018, í nokkrum skrefum, ef allt gengur að óskum. Þessi stækkun mun að sögn Björns Óla í raun duga í 10 ár, en ef fram haldi sem horfi, þá þurfi mjög fljótlega að fara að ráðast í miklar fjárfestingar upp á tugi milljarða.
Þar á hann við framtíðarstækkun sem annað hvort yrði í austur af suðurbyggingunni út á flugvöllinn, eða í austur út af norðurbyggingunni, sem enn hefur ekki verið byggð. Hann tekur þó fram að engin áform séu enn um þessar hugmyndir og að stjórnendur félagsins vilji vera sannfærðir um að flugið muni áfram þróast á svipaðan hátt og undanfarin ár til að standa undir slíkum framkvæmdum.
Í sumar skilaði Rögnunefndin svokallaða af sér hugmyndum um framtíðaráform fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þar var bent til staðsetningar í Hvassahrauni við Hafnarfjörð og jafnvel horft til þess að innanlandsflug og millilandaflug yrði sameinað á einn flugvöll. Aðspurður hvort þessar hugmyndir hafi einhver á fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli segir Björn Óli að skýrslan geri það, þótt erfitt sé að fresta framkvæmdum meðan ekkert liggi 100% fyrir í þessum efnum.
„Auðvitað hefur þetta áhrif, en það eru ákveðin atriði sem þarf að skoða betur,“ segir hann og bendir til þess að kostnaðarmat við uppbyggingu nýs flugvallar sé talsvert lág ef horfa á til alþjóðaflugvallar. Þannig segir Björn Óli að ekki sé horft til kostnaðar við að leggja olíulagnir frá Helguvík að mögulegum flugvelli í Hvassahrauni og annarra stórra þátta. Segir hann það ekki á stefnuskránni hjá Isavia að “bremsa sig í Keflavík þangað til Hvassahraunsumræðan er búin, þá fyrst verður Keflavíkurflugvöllur flöskuháls“ og ómögulegt að mæta auknum farþegastraum á komandi árum, segir Björn Óli. Hann viðurkennir að þó sé óþægilegt að hafa svona spurningar yfir sér og að þetta hafi einhver áhrif á áhættumat við framkvæmdir í dag.
Ein háværast gagnrýni sem komið hefur fram á Isavia undanfarin misseri er vegna breytinga sem voru gerðar á verslunarsvæðinu og vali á nýjum verslunarrekendum. Valið var að fara svokallaða forvalsleið og eftir að niðurstöður voru ljósar misstu meðal annars verslunin Epal og kaffihúsið Kaffitár aðstöðu sína í flugstöðinni. Gagnrýndi meðal annars eigandi Epal flugstöðina fyrir að leggja ekki nægjanlega áherslu á íslenska hönnun og handverk og eigandi Kaffitárs hefur viljað sjá allar upplýsingar frá þeim sem skiluðu upplýsingum í forvalsleiðina og meta hvaða tilboð hafi verið best.
Er nægjanleg áhersla á íslenskar áherslur?
„Stutta svarið er já,” segir Björn Óli og segir að þótt það hafi aldrei verið áætlunin að hafa allar vörur í flugstöðinni með íslenskum áherslum þá hafi nýir rekstraraðilar lagt talsvert upp úr því. Þá segir hann að í dag sé meira pláss á verslunarsvæðinu fyrir íslenskar vörur; handverk, matvöru, fatnað og aðra hönnunarvöru, en áður.
Erlend verslunarkeðja var meðal þeirra sem vann samkeppnina um aðstöðu fyrir fatnað og tískuvöru í flugstöðinni í þetta skiptið. Björn Óli segir að þessir aðilar hafi verið mjög ánægðir með íslenska hönnunarvöru og segir hann að í gegnum þessi tengsl gæti íslenskum hönnuðum boðist að selja vörur sínar víðar á flugvöllum um heiminn. Segir hann gagnrýnina hingað til hafa stjórnast nokkuð af ummælum þeirra verslana sem misstu pláss og að nýir búðareigendur hafi setið undir ummælum um minnkandi hlut íslenskrar vöru. Aftur á móti hafi komið inn sterkir innlendir aðilar núna síðast, eins og Rammagerðin og 66° Norður.
Í máli Kaffitárs og afhendingar gagna vegna forvalsleiðarinnar segir Björn Óli að það væri hreinlega ekki sanngjarnt fyrir þau fyrirtæki sem tóku þátt að afhenda gögnin. Það hafi verið skýrt í lýsingu með þessari leið og ef fyrirtækið myndi afhenda gögnin væri það brot á trausti við þau félög.
Björn Óli segir að samtals hafi 70 fyrirtæki sent inn umsóknir. Þær hafi skipst í tvo hluta. Það eru uppbyggingar- og umhverfishugmynd og svo nákvæm lýsing á markaðsáætlun og fjárhagslegar upplýsingar. Segir hann að það hafi í raun verið ítarleg viðskiptaáætlun sem ekki væri hægt að fara fram á í venjulegum opnum útboðum. Að sama skapi sé ekki hægt að afhenda neinar af þessum upplýsingum vegna trúnaðar. „Fyrir isavia hefði verið voðalega fínt að geta bara sett öll gögnin á borðið, en erum ábyrgir fyrir alla aðila,“ segir hann.
Síðasta vetur kom enn eitt málið upp í sambandi við Isavia sem fékk mikla fjölmiðlaathygli. Þá var upplýst í Kastljósi að Isavia hefði greitt fyrir persónulegar ferðir stjórnenda og fjölskyldna þeirra. Björn Óli segir að þótt greiðslan hafi farið í gegnum Isavia í þessum tilfellum, þá hafi viðkomandi aðilar alltaf borgað fyrir sínar ferðir áður en Isavia var rukkað um þær. Því hafi ekki verið um neina lánastarfsemi að ræða, eins og umræðan var um á sínum tíma. Eina skiptið sem svo var ekki var í tilfelli sjálfs forstjórans. „Það var eitt skipti hjá mér sjálfum, gleymdist að taka af reikningnum mínum. Mjög pínlegt fyrir mig,“ segir Björn Óli.
Fullyrðir hann að um einstakt atvik hafi verið að ræða og hann hafi rætt það við stjórn og að allir hafi verið sammála um að mistök hafi átt sér stað. Aðspurður hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti í þessu máli íhugað stöðu sína sem forstjóra fyrirtækisins neitar hann því. „Taldi þetta ekki þess eðlis að ég ætti að huga að stöðu minni.” Bætir hann því við að þegar hann horfi til baka til síðustu fimm ára þá sé hann frekar stoltur af því verki sem hafi verið unnið á flugvellinum. Völlurinn hafi tvöfaldað umsvif sín, árangur hafi náðst í rekstri innanlandsflugvalla og aukning hafi einnig orðið í flugstjórnarmiðstöðinni.