Talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraels, Emmanuel Nahshon, segir að haturseldfjall gjósi nú í borgarstjórn Reykjavíkur. Án nokkurrar ástæðu og réttlætingar, ekkert annað en hatur veldur því að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir, segir hann.
Fjallað er um samþykkt borgarstjórnar í ísraelskum fjölmiðlum en það var Björk Vilhelmsdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem lagði fram tillögu þessa efnis sem var samþykkt með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG. Á Facebook síðu sinni ritar Björk að nafn hennar sé komið á forsíðu Haaretz. „Þarf að fara huga að varaplönunum ef mér verður ekki hleypt inn á mánudaginn,“ skrifar Björk en eins og fram hefur komið þá er hún að fara til Palestínu að sinna hjálparstarfi.