Málið unnið með flóttamannahjálp SÞ

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir mbl.is/Styrmir Kári

Á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun verður búið að kortleggja hversu mörgum flóttamönnum verður hægt að taka á móti í fyrsta hópi þeirra hingað til lands. Fundað hefur verið með fulltrúum flóttamálahjálpar Sameinuðu þjóðanna um málið og þeim sagt að Íslendingar hafi í hyggju að taka á móti fleiri flóttamönnum í samstarfi við stofnunina. Þetta sagði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Eygló hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir á fundinum á morgun og hvort fólk yrði handvalið inn eftir að hafa búið til „vafasamar kríteríur“ í stað þess að nýta aðstoð og þekkingu flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Eygló sagði að á þessu ári hefði þegar verið tekið við fleiri flóttamönnum en allt síðasta kjörtímabil og að Íslendingar hefðu fengið meiri reynslu í þessum efnum. Þá hefðu einnig komið í ljós atriði sem þyrfti að bæta í ferlinu, t.d. að fjölga fólki sem gæti séð um túlkun á arabísku. Sagði hún að á fundi með flóttamálastofnun hefði meðal annars komið fram að best væri að upplýsa mögulega flóttamenn hingað hvert það sé að koma og hvernig aðstæður séu hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert