Litli og indæli bærinn Reykjavík, sem telur aðeins 120 þúsund manns, er að hunsa og brjóta alþjóðlegan sáttmála. Með þessum orðum hefst grein sem birtist í dag á fréttavefnum Jewish Press.
Er í framhaldinu fullyrt að innkaupabannið sem samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur brjóti á sáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem lýtur að innkaupum ríkisstjórna. Hefur höfundur greinarinnar þetta eftir Eugene Kontorovich sem sagður er sérfræðingur í alþjóðalögum.
Sáttmálinn tók gildi í apríl á síðasta ári en Ísland og Ísrael voru á meðal fyrstu tíu ríkjanna til að ljá honum undirskrift sína. Fyrsta meginregla hans felst í því að ekki megi mismuna aðilum á sviði viðskipti. Þannig megi ríki til dæmis ekki hygla eigin framleiðslu á kostnað annarra framleiðenda.
„Úps,“ segir höfundur greinarinnar. „En við erum ekki búin ennþá.“
Í kjölfarið er greint frá því að skýrar reglur séu í sáttmálanum um innkaup og að skilyrði um uppruna vara stangist á við hann. „Í raun er markmið samningsins að hlúa að alþjóðaviðskiptum og forðast mismunun á milli erlendra birgja, vara eða þjónustu.“ Þá er einnig bent á að sáttmálinn nái einnig til sveitarfélaga og að það sé skýrt tekið fram í viðauka hans.
Greinarhöfundur efast um að bannið muni hafa einhver teljandi áhrif á útflutning Ísraels. Er tiltekið að árið 2013 hafi verðmæti innflutnings numið um 720 milljónum króna og að líklega kaupi Reykjavík lítið af umræddum vörum.
„En ósvífni þessara sjálfumglöðu slettireka, sem eru svo heimskar að þau stofna aðild þjóðarinnar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni í hættu, er vert að taka eftir og formæla.
Ísrael myndi auðvitað eiga rétt á að bera málið undir stofnunina þar sem um er að ræða klár brot á sáttmálanum. Málið er svo auðsótt að við getum búist við aðgerðum frá ísraelsku ríkisstjórninni. Þeir sem sækja ekki rétt sinn, missa hann, eins og máltækið segir.“
Að lokum er vísað til þess að flugfélögin Icelandair, Wow air og Flugfélag Íslands séu öll íslensk.