Reynt að lágmarka tjónið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum rætt málið óformlega og munum taka það formlega fyrir á ríkissjórnarfundi á morgun. Utanríkisráðherra og iðnaðrráðherra hafa tekið að sér að afla upplýsinga um málið, áhrif þess, lögmæti og svo framvegis,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is um ákvörðun meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur að sniðganga ákveðnar vörur sem framleiddar eru í Ísrael í innkaupum borgarinnar.

„Við höfum fengið upplýsingar um að þessi ákvörðun kunni þegar að hafa valdið talsverðu tjóni. Fyrirtæki og einstaklingar hafi ákveðið að hætta viðskiptum við Ísland og hætta að kaupa og selja íslenskar vörur. Það liggur ennfremur fyrir eftir vinnu dagsins að þessar aðgerðir Reykjavíkurborgar eiga sér ekki stoð í lögum, ganga raunar gegn lögum og gegn alþjóðsamningum sem við Íslendingar eigum aðild að,“ segir Sigmundur.

Reynt verði í framhaldinu að útskýra hið rétta í málinu. Margar fyrirspurnir hafi borist til utanríkisráðuneytisins vegna málsins og annarra stofnana. Reynt sé að koma réttum upplýsingum á framfæri og lágmarka tjónið. Þarna sé ekki um að ræða stefnu stjórnvalda eða afleiðingu af henni og ennfremur að ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögum.

Spurður hvað hann telji að Reykjavíkurborg ætti að gera í stöðunni segir forsætisráðherra að borgin ætti fyrir það fyrsta að viðurkenna að hún hafi farið út fyrir valdsvið sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert