„Það liðu varla klukkutímar frá því að þetta kom upp að fyrstu fyrirtækin hættu að selja vörunar,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings hf., í samtali við mbl.is um tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur um að sniðganga vörur frá Ísrael. Dagur B. Eggertsson hefur tilkynnt að tillögunni verði breytt þannig að hún nái aðeins til varning sem framleiddur sé á svæðum sem hernumin séu af Ísrael.
Jón segir að málið eigi eftir að hafa gífurleg áhrif á fyrirtæki í útflutningi og að Reykjavíkurborg verði að falla frá tillögunni sem fyrst, ekki dugi að breyta henni þannig að hún nái aðeins til þeirra vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum. „Borgin verður að falla frá þessu, það er það eina sem getur bjargað annars er þetta skaði upp á milljarða fyrir fyrirtækin.“
Hann segir ákvörðun borgarstjórnar gífurlega vanhugsaða og spyr sig hvort borgarstjórn hafi yfir höfuð heimild til þess að taka ákvarðanir sem þessa þar sem hún hafi ekkert með utanríkisstefnu landsins að gera.
„Ég tel að ef þetta heldur svona áfram munum við algjörlega missa markaðinn í New York og svo víðar seinna. New York-borg er næstum algjörlega stjórnað af gyðingum þegar kemur af þeim verslunum sem selja vatnið frá okkur,“ segir Jón.
Hann leggur áherslu á að draga verði tillöguna algjörlega til baka þar sem það muni hafa lítil áhrif að breyta henni að hluta. „Ef fyrirtækin verða fyrir skaða af völdum þessa er spurning hvort borgin sé ekki orðin skaðabótaskyld.“ Hann segir Ísland aldrei hafa verið þekkt fyrir að beita hótunum eða misvaldi og því sé ekki rétt af borginni að taka upp á því núna.
Þá bendir Jón á að þessi ákvörðun borgarinnar hafi afar víðtæk áhrif bæði á ímynd landsins og aðra þætti eins og atvinnuöryggi. „Ef tillagan verður ekki dregin til baka mun framleiðslan hjá okkur og öðrum minnka verulega og það þýðir að fólk mun missa vinnuna. Ég er viss um að íbúar Reykjavíkurborgar voru ekki að kjósa þessa stjórn til þessi að hafa þessi áhrif á efnahagslífið og atvinnuástandið á Íslandi.“