Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir samtökin hafa fengið töluvert af meldingum frá fyrirtækjum í ferðaþjónustunni vegna samþykktar Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael.
Hann segir orð og ályktanir hafa ábyrgð og síðan á þriðjudag hafi íslensk fyrirtæki fengið töluvert af fyrirspurnum, haturspóstum og eitthvað af afbókunum vegna málsins. Skapti Örn segir þetta sýna hversu viðkvæmt ástandið í ferðaþjónustunni sé nú í heimi samfélagsmiðla og nútíma fjölmiðlunar, enda sé orðið fljótt að berast.
Skapti Örn segir ísraelska ferðmenn mikilvæga fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. „Þetta eru verðmætir ferðamenn sem kaupa vöru og þjónustu hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu hér landi á landi.“ Hann segir aukningu ferðamanna á Íslandi hafa verið um og yfir 20% síðastliðin ár þegar hún er um 4-5% annars staðar í heiminum og því verði fólk að hafa í huga að orðum fylgir ábyrgð.
„Þetta er lýsandi dæmi um það hvað ástandið er viðkvæmt þegar kemur að ferðaþjónustu, þetta snýst allt um orðspor og ímynd.“ Hann bendir á að þó svo að ákveðið hafi verið að draga tillöguna til baka fyrr í dag sé skaðinn þegar skeður.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir Icelandair hafa fengið þó nokkur viðbrögð við ákvörðun borgarstjórnar. „Á þessu stigi er fólk aðallega að láta okkur vita að það sé verið að fylgjast með og er að hvetja okkur til þess að beita okkur gegn þessum ákvörðunum.“ Hann segir athugasemdirnar koma frá viðskiptavinum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum í ferðaþjónustunni en enn hafi þó ekki borist neinar afbókanir.
Þá segir Þóra Björk Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðskrifstofunnar Nordic Visitor, að sér hafi borist póstar og athugasemdir vegna málsins. Hún segir fólk ekki gera greinarmun á því að hér sé um ákvörðun borgarstjórnar að ræða og tali um þetta sem ákvörðun Íslands. „Verið er að gagnrýna það að við séum að sniðganga ísraelskar vörur og þá ætlar fólk sér í staðin að hætta við að ferðast til Íslands.“ Hún segir ferðaskristofunni ekki hafa borist neinar beinar afbókanir en fólk sem hafi haft áhuga á að heimsækja landið sé frekar að hætta við. „Sumir af þessum póstum hljóma þannig að fólki hafi lengi langað og ætlað sér að koma til Íslands en sé nú hætt við.“