„Hélt ég væri öruggur hérna“

Pedarsani heldur hér á synjun kærunefndar útlendingamála á beiðni hans …
Pedarsani heldur hér á synjun kærunefndar útlendingamála á beiðni hans um að fá áheyrn máls síns.

„Ég kom til Íslands því ég hélt að þar væri ég kominn nógu langt frá hinum Evrópulöndunum. Ég hélt að ég væri öruggur hérna. Ég vil ekki fara aftur til Írans því þar hef ég ekkert frelsi,“ segir Mehdi Pedarsani. Hann kom til Íslands í fyrra eftir að hafa flúið frá Íran árið 2008, en honum verður brátt vísað úr landi.

Í gær fékk Pedarsani synjun kærunefndar útlendingamála á beiðni hans um að fá áheyrn máls síns hér. Kærunefndin staðfesti að Útlendingastofnun mætti vísa Mehdi úr landi án þess að gefa máli hans efnismeðferð, með vísun í Dyflinnarreglugerðina, sem heimilar stjórnvöldum að senda viðkomandi hælisleitanda aftur til þess Schengen-ríkis sem hann kom fyrst til.

Honum var einnig tilkynnt að hann mætti samt vænta brottvísunar hvenær sem er, þótt hann ætli að áfrýja málinu.

„Ég sagði við yfirvöld að ég vildi áfrýja málinu en fékk þau svör að meðferð áfrýjunarinnar gæti tekið langan tíma. Í millitíðinni gæti ég þurft að fara og þannig úrskurðað um hvort ég megi koma til baka eða ekki, á meðan ég er víðs fjarri.“

Íran. „Þó maður sé kristinn þarf maður samt að hlíta …
Íran. „Þó maður sé kristinn þarf maður samt að hlíta reglum múslima í einu og öllu, eða hljóta verra af,“ segir Pedarsani.

Vísað á brott til Noregs

Yfirvöld hyggjast flytja Pedarsani af landi brott og til Noregs, þaðan sem hann kom. Hann segir að þar verði tekið á móti sér og honum ekki leyft að yfirgefa flugvöllinn, heldur þurfi hann að bíða þangað til yfirvöld þar ytra flytja hann til Írans. Þangað vill hann alls ekki snúa aftur.

Pedarsani vann við bifvélavirkjun í Íran og tók þátt í verkalýðsbaráttu fyrir betri starfskjörum, en hann segir stjórnvöld Írans ekki leyfa slík uppátæki. Á hann því yfir höfði sér fangelsisdóm snúi hann heim aftur.

Þar að auki er Pedarsani kristinn og segir hann marga trúbræður sína og -systur eiga erfitt uppdráttar í þessu landi þar sem múslimar ráða lögum og lofum. „Þó maður sé kristinn þarf maður samt að hlíta reglum múslima í einu og öllu, eða hljóta verra af,“ segir Pedarsani og bætir við að hann sæti trúarlegum ofsóknum í heimalandi sínu.

Íranir gera innkaup sín á markaði í Teheran í vikunni.
Íranir gera innkaup sín á markaði í Teheran í vikunni. AFP

Saknar fjölskyldunnar í Íran

Fjölskylda hans býr ennþá í Íran og segist hann sakna þeirra mikið. Hann muni þó ekki fá tækifæri til endurfunda við heimkomuna heldur muni hann að líkindum vera færður til fangelsisvistar um leið og fætur hans snerta jörðu.

Pedarsani fer daglega í Tækniskólann á Skólavörðuholti til að læra íslensku en hann hefur þegar nokkurn grunn í norsku eftir að hafa búið þar frá 2008 þangað til á síðasta ári, þegar honum var sagt að hann þyrfti að yfirgefa landið. Var hann þá búinn að starfa þar í sex ár við strætisvagnaviðgerðir og hafði á þeim tíma séð um öll sín útgjöld sjálfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert