„Margt fólk hefur misst alla von, það hélt að það þyrfti að dvelja þarna í stuttan tíma, en liðin eru allt upp í fjögur ár fyrir flesta. Það er búið með allan sparnaðinn sem það átti í Sýrlandi, getur ekki unnið fyrir sér, verið löglegir í landinu, komist annað né flutt heim. Það er engin leið út. Ég get rétt ímyndað mér vonleysið. En viljinn til að lifa er ógnasterkur. Og að vilja öryggi fyrir börnin sín er rauði þráðurinn í gegnum þetta allt saman. Börnin brosa og leika sér, syngja fyrir okkur og finnst við frekar áhugaverð. Þau eru svo saklaus.“
Þannig skrifar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, á Facebook-síðu sína. Hún var fyrr í vikunni stödd í Líbanon þar sem hún kynnti sér aðstæður í flóttamannabúðum ásamt þingmönnunum Óttarri Proppé og Unni Brá Konráðsdóttur, en íslenskir ráðamenn hafa sagt að til standi að taka við flóttamönnum sem þar eru staddir í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Talið er að tvær milljónir flóttamanna séu í landinu en engar nákvæmar opinberar tölur eru hins vegar til yfir það. Heimamenn eru um fjórar og hálf milljón. Vegna atvinnuleysis í Líbanon hafa stjórnvöld bannað flóttafólki að vinna fyrir sér í landinu að sögn Þórdísar.
Fólkið sem á ekki fyrir flugi eða bátsferð
„Flóttamenn eiga ekki fyrir því að endurnýja skráningu í landinu, þurfa auk þess gögn frá Sýrlandi sem kostar að fá og er stundum ógerlegt í landi þar sem stríð geysar, eðli málsins samkvæmt. Þau eru því mörg orðin ólögleg í Líbanon. Þau búa við ömurlegar aðstæður, í handónýtum og ógeðslegum íbúðum sem þau leigja, með engum rúmum, borðum eða jafnvel klósettaðstöðu. Aðrir búa í hálfgerðum tjöldum á landi einkaaðila sem þeir greiða leigu fyrir. Enn aðrir hafa ekkert húsaskjól. Börn er tekin úr skóla til að vinna svo fjölskyldan eigi fyrir brauði, það er erfið og ömurleg ákvörðun,“ segir hún ennfremur og áfram:
„Þetta er fólkið sem ekki á fyrir flugi eða bátsferð. Eða hraktist frá Sýrlandi fyrir löngu síðan og á ekkert í dag. Einn ungur maður var með vegabréf og kvittun fyrir flugmiða klárt og ætlar að komast til Evrópu. Í búðunum býr hann með fallegri fjölskyldu sinni, konu á mínum aldri og tveimur börnum, litlum "Marvin Gylfa" og yngri dóttur. Hann ætlar í ferðalag sem hann veit ekkert hvort hann lifir af, í þeirri von um að komast í skjól og fá fjölskylduna til sín - hvernig maður tekur svona ákvörðun veit ég ekki,“ en Marvin Gylfi er sonur Þórdísar.
Myndbandið frá Íslandi farið víða
Þórdís ber þessar aðstæður saman við stöðu Íslendinga sem búa við öryggi og í raun öll möguleg þægindi. Á leiðinni heim hafi hún millilent í Frankfurt í Þýskalandi. Þar hafi kurteis starfsmaður flugvallarins gefið sig á tal við hana og spurt hvaðan hún væri að koma. Samræðurnar hafi farið fram á þýsku. Þegar hann heyrði að hún væri að koma frá Líbanon og hvert erindið þangað hefði verið sagðist hann hafa séð myndband frá Íslandi þar sem eldri kona bauð flóttamönnum húsaskjól hjá sér og nágrönnum sínum. Myndbandið hefði farið víða.
„Ég sagði jamm, við erum rík þjóð og eigum að hjálpa til eins og aðrir. Það er fallegt af ykkur sagði hann, ég var sjálfur í þessum sporum fyrir 20 árum síðan. Flúði frá Kosovo og Þýskaland tók á móti mér. Takk fyrir að láta fólkið ykkur varða. Það er ekki öll Evrópa að gera það,“ segir Þórdís og lýkur skrifum sínum á þessum orðum: „Á ein ríkasta þjóð í heimi, í breiðum skilningi þess orðs, að hjálpa til þegar neyðarástand ríkir? Að sjálfsögðu.“