Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðað að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar hafi verið óheimilt að fjarlægja númerslausa bifreið úr bílastæði á horni Guðrúnargötu og Rauðarárstígs. Átti atvikið sér stað í apríl á síðasta ári.
Málavextir voru þeir að seint í marsmánuði sama ár hafði verið límd tilkynning á rúðu bifreiðarinnar, af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs, um að fjarlægja skyldi bifreiðina með vísan til ákvæða reglugerðar um hollustuhætti, reglugerðar um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Kom fram í tilkynningunni að eiganda bifreiðarinnar væri veittur frestur til 7. apríl til að fjarlægja hana og að auki var tekið fram að henni yrði fargað að loknum þeim fresti eða hún tekin í vörslu í 45 daga.
Með bréfi sem dagsett var sama dag og fresturinn rann út, komu fram andmæli af hálfu eiganda bifreiðarinnar, sem krafðist þess að hætt yrði við boðaðar aðgerðir eða að veittur yrði viðbótarfrestur í 30 daga. Var honum þá veittur viðbótarfrestur í tvo daga með tölvubréfi.
Umhverfis- og skipulagssvið lét loks fjarlægja bifreiðina en við það var eigandinn ósáttur og kærði hann þá ákvörðun. Tók hann fram að mörg bílastæði væru á svæðinu og þau hafi ekki verið öll í notkun á sama tíma. Þá hafi engar kvartanir borist vegna bifreiðarinnar og hafi hún verið undir stöðugu eftirliti þar sem hún hafi verið skammt frá heimili kæranda.
Úrskurðarnefndin komst þá að þeirri niðurstöðu að umhverfis- og skipulagssviði hafi verið óheimilt að fjarlægja bifreiðina og ógilti ákvörðunina, með vísan til þess að heilbrigðisnefnd sveitarfélags hefur ein heimild til þess að láta fjarlægja númerslausa bíla samkvæmt lögum.
Breytti engu um það að heilbrigðisnefnd borgarinnar hafði framselt vald sitt til umhverfis- og skipulagssviðs því úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisnefndin hafi ekki heimild til þess að framselja vald sitt.
Þá tekur úrskurðarnefndin fram að uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hafi dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.