Einkaneysla vex hratt. Ásókn hefur aukist í dýrari utanlandsferðir, húsgögn, reiðhjól og bíla. Er „2007“ komið aftur?
„Fólk sleppir frekar einfaldri viðgerð og kaupir sér nýtt tæki. Þetta eru oft dýrir símar sem duga vel. Þetta á ekki bara við símana heldur líka spjaldtölvur og fleiri raftæki,“ segir Bjartmar Oddur Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar, fyrirtækis sem tekur við og endurnýtir raftæki frá einstaklingum og fyrirtækjum en að hans sögn hefur það aukist mikið að einstaklingar hendi nýlegum símtækjum. Tækin eru að meðaltali ekki orðin 1 og 1/2 gömul en voru að fyrir um ári að meðaltali 2 ára.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er fjallað um einkaneyslu Íslendinga sem vex hratt samkvæmt ýmsum hagtölum og greina má þenslumerki í þjóðfélaginu. Ýmiss varningur selst betur og oft er hann líka í hærri verðflokkunum. Sumir spyrja sig hvort neysluhegðun okkar sé á pari við það sem var í kringum hið alræmda ár 2007.
„Guðni Jónsson, framkvæmdastjóri húsgangasviðs Pennans, sem selur bæði skrifstofuhúsgögn sem hafa fokið út síðustu misserin sem og dýrari hönnunarvöru til heimilisins segir það þeirra upplifun að fólk sé að kaupa dýrari vöru sem séu þá líka vandaðri. „Við höfum átt mjög gott haust og undanfarið sérstaklega verið góð sala í skrifstofuhúsgögnum og dýrustu og vönduðustu vörurnar til heimilisins eru farnar að hreyfast aftur,“ segir Guðni.
Þá er ljóst að ferðaglaðir Íslendingar, sem stefna í það að ferðast jafnmikið og þeir gerðu sumarið 2007 eru farnir að velja sér dýrari ferðir og betri sæti.
„Fyrir utan að við finnum fyrir aukningu í sölu á utanlandsferðum þá höfum við orðið vör við það að fólk velur dýrari gistingu heldur en var fyrstu árin eftir hrun og þar spilar auðvitað i í gengi krónunnar er hagstæðara,“ segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða. Bæði hefur ásókn í golfferðir aukist og fólk er þá farið að fara aftur í dýrari exótískar ferðir á fjarlægari staði.
Guðrún Sigurgeirsdóttir, framleiðslustjóri hjá ferðaskrifstofunni Vita, tekur í sama streng og Tómas og bendir á að meiri ásókn sé í Saga Class-sætin. „Við fljúgum við Icelandair og það er slegist um Saga Class-sætin okkar, fólk vill borga meira og hafa það betra. En ég held að þarna spili líka inn í að Íslendingar eru orðnir það reyndir ferðamenn að þeir vita að það er ekki alltaf skynsamlegast að velja það ódýrasta.“