Taka verði heildstætt á vandanum

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarni …
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Ekki síst það að þarna er verið að taka á heildarumfangi vandans. Það er ekki eingöngu verið að líta á afmarkaðan hluta málsins, þó umræðan sé stundum á þeim nótunum, heldur lítum við á heildarsviðið. Mikilvægt er að líta á flóttamenn sem eina heild hvort sem um er að ræða svokallaða kvótaflóttamenn eða flóttamenn sem koma til landsins eftir öðrum leiðum.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is en hann tilkynnti á blaðamannafundi ásamt öðrum ráðherrum í ráðherranefnd um flóttamannavandann að tveir milljarðar yrðu settir í málaflokkinn á þessu ári og því næsta. Mikil áhersla verði lögð á að styðja við fólk í flóttamannabúðum í löndunum í kringum Sýrland og jafnvel Sýrlandi sjálfu þar sem aðstæður séu víða mjög slæmar. Þar geti framlag Íslands skipt gríðarlega miklu.

„Við höfum fengið tölur um það hversu miklu máli hver milljón skiptir við þessar aðstæður. Það er mikill fjöldi fólks sem getur komist af fyrir hverja og eina milljón hvað varðar matvæli, heilbrigðisþjónustu og annað. Þannig að þegar við horfum fram á að setja mörg hundruð milljónir í þennan stuðning þá getum við með því hjálpað þúsundum. Það er einnig mjög ánægjulegt að sjá að miðað við þessi framlög þá stöndumst við allan alþjóðlegan samanburð.“

Ekki negld niður ákveðin tala

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að taka við um eitt hundrað flóttamönnum á þessu ári í heildina. Þá bæði kvótaflóttamönnum og flóttamönnum sem koma með öðrum hætti til landsins. „Við förum þá leið að negla ekki niður ákveðnar tölur heldur hafa sveigjanleika í því hvernig við ráðstöfum fjármagninu vegna þess einfaldlega að við vitum ekki hvernig þetta mun þróast. Við vitum til að mynda ekki hversu mörgum við þurfum að veita þjónustu sem koma hingað sem hælisleitendur og fá í kjölfarið hæli í landinu.“

Hins vegar sé hægt að áætla fjöldann á þessu ári en gert sé ráð fyrir að fjöldi flóttamanna sem tekið verði við í ár verði um eitt hundrað. Hvað fjármagn varði séu allt að 250 milljónir króna eyrnamerktar komu kvótaflóttamanna, um hálfur milljarður í að bæta stöðu hælisleitenda og flýta afgreiðsluferli þeirra og síðan fjármagn í að aðstoða fólk í löndunum í kringum Sýrland. Spurður um hugsanlegar stjórnsýslubreytingar nefnir Sigmundur það að hætt verði að gera eins mikinn greinarmun á kvótaflóttamönnum og öðrum flóttamönnum.

Spurður áfram um það hvort samstaða væri í ríkisstjórn um málið segir hann svo vera. „Það var mikil samstaða um þetta og mikil samstaða um nálgunina. Það er að þess sé gætt að farið verði í aðgerðir sem virki heildstætt á vandann og séu til þess fallnar að draga úr honum frekar en að auka á hann. Við viljum ekki senda þau skilaboð að það sé ekkert gert fyrir flóttafólk í nágrenni Sýrlands nema þeir leggi í lífshættulega för til Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert