„Þetta kemur frá hjartanu, ég þoli ekki að sjá kúgaða konu og áskil mér rétt til að hjálpa henni. Alltént reyna mitt besta til þess. Konur eiga ekki að sætta sig við það að vera kúgaðar. Þess vegna hvatti ég konur í Íran til að nýta kosningarétt sinn og koma út af heimilunum. Taka þátt. Hvernig getur það verið glæpur?“
Þetta segir íranska baráttukonan Nazanin Askari en hún flúði heimaland sitt vegna pólitískra skoðana sinna árið 2009. Eftir nokkra hrakninga endaði hún á Íslandi og bíður nú eftir íslenskum ríkisborgararétti. Nazanin misbauð margt í Íran, ekki síst staða kvenna, og hóf ung að beita sér fyrir umbótum. Hún er róttæk að upplagi og fór snemma að taka þátt í mótmælum.
Nazanin segir undirtektir almennt hafa verið góðar. Íranskar konur séu sterkar að upplagi og komi með tímanum til með að sækja rétt sinn. „Íranskar konur voru einu sinni frjálsar og auðvitað vilja þær endurheimta frelsið. Þetta er spurning um samstöðu. Margt smátt gerir eitt stórt. Ég er ein rödd, nái ég til tíu kvenna, ná þær vonandi til hundrað og þær aftur til þúsund. Og þannig koll af kolli.“
Hún ber Íslandi og Íslendingum vel söguna. Fá lönd í heiminum séu komin lengra á braut frelsis og umburðarlyndis. Nefnir hún kvenréttindi og réttindi samkynhneigðra sérstaklega í því sambandi. „Ef ég á að vera alveg hreinskilin vissi ég ekki að til væri svona umburðarlynt land. Hver hefur ekki heyrt slagorðin: „Konur eru valdamiklar!“ og „Að baki hverjum farsælum karli stendur kona!“ Á Íslandi eru þetta ekki slagorð, heldur veruleiki. Hægt er að þreifa á völdum kvenna. Mér líður afskaplega vel hérna og finnst ég vera heppin. Ég gæti varla verið öruggari. Það hlýtur einhver mjög jákvæð og sterk orka að hafa leitt mig hingað. Kannski er Guð til eftir allt saman? Íslendingar eru upp til hópa hlýtt og duglegt fólk en svolítið lokaðir. Þeir hleypa manni ekki svo auðveldlega inn.“
Nazanin Askari segir sögu sína í sýningunni Nazanin sem frumsýnd var í Tjarnarbíói á föstudagskvöldið. Nánar er rætt við hana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.