Tími til að borga reikninginn

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, klökknaði í ræðustól á flokksstjónarfundi …
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, klökknaði í ræðustól á flokksstjónarfundi í dag. mbl.is/Eva Björk

„Er ekki kominn tími til að borga reikninginn fyrir þátttökuna á lista hinna viljugu þjóða?“ spurði Árni Páll Árnason þegar hann ávarpaði þátttakendur í flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, sem fram fer í dag.

„Innrásin í Írak, sem studd var dyggilega af ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka, markaði upphaf hörmungarsögu átaka og ofbeldis sem fólk er nú að flýja. Hundruð þúsunda greiða nú fyrir það feigðarflan með lífi sínu,“ sagði Árni Páll, en hann klökknaði við flutning ræðu sinnar.

„Ríkisstjórn Íslands getur reynt að finna sér skjól frá sameiginlegri ábyrgð með því að spila á þjóðernisnótur og segjast ekki ætla að láta ESB segja sér fyrir verkum. Fínt. Tökum þá við fleiri flóttamönnum en ESB leggur til að við gerum,“ sagði hann og uppskar lófaklapp.

Lagði hann áherslu á að öll Evrópuríki verði að vinna í sameiningu við að taka við fólki sem kemur til álfunnar, og að setja þyrfti á fót móttökustöðvar í nágrannaríkjum átakasvæðanna.

Sérstakir rausnarlegir kvótar þurfa að vera til fyrir fólk sem leitar þangað, svo fólk sjái að það skili einhverju að fara í röðina. Ísland þarf líka að leggja af mörkum til þeirra. Annars halda þessir manndrápsfleytuflutningarnir um Miðjarðarhafið áfram.“

Því næst vék hann að stöðu mála á Íslandi þar sem hann sagði ríkisstjórnina ekki vera með rétta forgangsröðun.

Ríkisstjórnin byrjar á öfugum enda

„Eftir erfið ár er glíman við afleiðingar hrunsins loks að baki. Við getum litið stolt til hlutverks okkar, en sigurinn var þjóðarinnar allrar. En eins og svo oft áður í íslenskri sögu er framtíðin óviss.

Íslendingar hafa einstaka getu til að takast saman á við erfiðleika. Það sem okkur hefur hins vegar alltaf skort er aginn og sjálfstjórnin til að þola góða tíma. Og því miður er engin breyting á því,“ sagði Árni og vék þar næst að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

„Ríkisstjórnin byrjar á öfugum enda. Svigrúmið í ríkisútgjöldum er auðvitað ekki ótakmarkað, en hún velur að nýta það fyrir þá best settu. Um helmingur skuldaleiðréttingarinnar fór til vel setts fólks sem hefur hagnast á húsnæðiskaupum og þekkti skuldavanda einungis af afspurn.“

Árni Páll sagði heiminn vera að opnast vegna örrar þróunar í tækni og vísindum og tók sem dæmi arabíska vorið þar sem „kúgunarstjórnir misstu tökin í hverju ríkinu á fætur öðru í Norður-Afríku þegar sjálfsprottin bylgja á samfélagsmiðlum leysti langvarandi óánægju úr læðingi“, og bætti hann við að allir hefðu fagnað þeirri lýðræðisbylgju.

„En það er eins og við höfum algjörlega gleymt að draga af því lærdóm hvaða áhrif sambærilegar breytingar myndu hafa á vestrænt lýðræði og hefðbundna flokkaskipan,“ sagði hann og vísaði til átakshópsins „Kæra Eygló“ á Facebook, sem hafi aukið þrýsting á ríkisstjórnina til aðgerða.

Ekki valkostur að neita að hlusta

Sagði hann Samfylkinguna geta nýtt sér tækifæri á grundvelli þessara breytinga ef rétt væri aðhafst.

„Tímarnir eru að breytast og við höfum nú val um hvernig við bregðumst við. Það er ekki valkostur að neita að hlusta. Við getum gert eins og gömlu flokkarnir og agnúast út í samfélagsbreytingar, pirrast á skoðanakönnunum og kennt óvæginni umræðu á netinu um allt sem aflaga fer. Reynt að segja sama hlutinn en tala bara hærra. Búa til betri glansmyndir af okkur,“ sagði Árni og hélt áfram:

„En við getum líka brotist út úr þeim viðjum sem flokkakerfið hefur hneppt okkur í. Flokkar verða ekki litlir við að missa fylgi heldur við að hætta að hugsa stórt.“

Hann sagði Samfylkinguna eiga að leggja áherslu á grundvallarbreytingar sem tryggi þjóðinni áhrif um stór mál. 

„Það eru nú tækifæri til að ná árangri með breytingum á stjórnarskrá strax næsta vor. Sumir innan stjórnarflokkanna finna þrýsting þjóðarinnar og við eigum að nýta okkur það og ekki láta valdhafa telja úr okkur kjark. 

Í framhaldinu eigum við svo að leita samstöðu með öðrum umbótasinnuðum öflum um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna, framhald stjórnarskrárbreytinga og aðrar nauðsynlegar grundvallarbreytingar í kjölfar næstu kosninga,“ sagði Árni.

Vert að skoða hugmynd Pírata

„Píratar hafa sett fram hugmynd um stutt þing í þessu skyni og það er hugmynd sem vert er að ræða. Við viljum skapa okkur traust og kannski verður það best gert með því að setja fá, skýr og mælanleg markmið.“

Því næst talaði Árni um gildi Samfylkingarinnar þar sem hann minntist uppruna flokksins.

„Ég var spurður um daginn hvað Samfylkingin stæði fyrir og hvers vegna fólk ætti að kjósa hana. Fyrst duttu mér í hug alls konar hástemmdar lýsingar um gengna sigra, glæsta leiðtoga og fagrar hugsjónir. En mér fannst það einhvern veginn ekki ríma við okkar tíma. Ég held að svarið  einfaldara: Við erum raunhæfasti kosturinn,“ sagði Árni og útskýrði nánar:

„Við erum flokkur sem var stofnaður sem fjöldahreyfing ólíksfólks, ekki hefðbundinn flokkur fólks sem gengur í takt. Við erum sammála um meginhugsjón, en rúmum mjög ólíkar skoðanir og viljum hafa það þannig. Og þannig á það líka að vera.

Forystufólk engir sólkonungar

Hjá okkur er forystufólk fremst meðal jafningja, en ekki sólkonungar. Allt okkar starf hefur miðað að því að þróa praktískar lausnir og koma málum í höfn. Við þurfum ekki að vinna slaginn um tilfinningaþrungnustu ræðuna, stærstu orðin eða mesta sviðsljósið: Okkur dugar að vinna til góðs.“

Að lokum vísaði Árni Páll til orða Gylfa Þ. Gíslasonar sem sagði að jafnaðarstefnan væri sú stjórnmálastefna sem tengdi hug og hjarta. 

„Það er hárrétt og það er knýjandi þörf fyrir slíka stefnu, sem tengir hugsjón og veruleika, í nýju stjórnmálunum. 

Hún getur tengt sársaukann og reiðina sem við finnum yfir óréttlæti og kúgun nær og fjær og viðbragðið sem kviknar hjáþúsundum samtímis á svipstundu, raunhæfum lausnum sem leggja grunn að betri framtíð og réttlátari heimi. 

Við skulum nýta okkur þennan höfuðstyrk til sóknar á næstu misserum.“

Viðstaddir klöppuðu til heiðurs Guðbjarti Hannessyni sem nýlega greindist með …
Viðstaddir klöppuðu til heiðurs Guðbjarti Hannessyni sem nýlega greindist með krabbamein. mbl.is/Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert