Ók á mann á Hellisheiði

Lögreglan á Suðurlandi lýsir eftir hvítum Honda-jepplingi sem var á ferðinni á Hellisheiði milli klukkan 9.00 og 10.30 síðastliðinn föstudag.

Talið er að bíllinn hafi verið á leiðinni austur en ökumaður hans fór ekki eftir þeim leiðbeiningum sem gilda á svæðinu vegna vegaframkvæmda á Hellisheiði með þeim afleiðingum að hann ók utan í mann sem var við vegavinnustörf á svæðinu. Ef ökumaður kannast við atvikið er hann beðinn um að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi. 

Maðurinn féll utan í stiku en hélt áfram vinnu sinni. Þegar líða tók á daginn fór hann að finna fyrir verkjum og þá komu í ljós innvortis áverkar.

Lögreglan vill árétta það að ökumenn fari eftir fyrirmælum um breyttar umferðarreglur á svæðinu. Vegna framkvæmdanna á Hellisheiði gilda hraðalækkanir og bann við framúrakstri. Þá þarf þarf einnig að taka tillit til þeirra starfsmanna sem að vinna að framkvæmdunum.

Furðar sig á háttsemi ökumannsins

Eiginkona mannsins er ekið var á furðar sig háttsemi ökumannsins í innleggi sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún greinilegt að ökumaðurinn hafi ekki verið að „fíla“ að þarna væru menn við vinnu og að hann hafi þurft að hinkra stutta stund meðan jarðvegsefni væri sturtað á götuna. Hún segir eiginmann sinn alltaf klæddan í sýnileg neongul vinnuföt og því hafi aðrir bílar stoppað fyrir honum. Þessi bílstjóri hafi aftur á móti gefið í með þeim afleiðingum að keyrt var á hann. Eftir læknisskoðun kom í ljós að maðurinn var með sært milta, marinn kviðvegg og þrjú brotin rifbein. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert