„Íslendingar ekkert lært af helförinni“

Dr. Manfred Gerstenfeld er sagður hafa starfað lengi sem strategískur …
Dr. Manfred Gerstenfeld er sagður hafa starfað lengi sem strategískur ráðgjafi fyrir stjórnir alþjóðlegra fyrirtækja.

Atburðir liðinna daga á Íslandi ríma vel við langa sögu gyðingahaturs í landinu. Þetta segir í grein sem birtist í dag á fréttavefnum Israel National News. Dr. Manfred Gerstenfeld skrifar greinina og tekur sem dæmi Passíusálma Hallgríms Péturssonar og hælisveitingu Íslands til Bobby Fischers.

„Þetta er meira af því sama. Á hverju ári á tímum föstunnar fyrir páska, fá Íslendinga daglegan skammt af sálmum, fullum af hatri og háðsglósum í garð gyðinga, í útsendingum ríkisútvarpsins,“ segir Gerstenfeld.

„Þessir sálmar voru skrifaðir á sautjándu öld af kristna prestinum og skáldinu Hallgrími Péturssyni, mörgum árum áður en fyrstu gyðingarnir komu til Íslands. Þessi hefð endurspeglar hversu lítið Íslendingar hafa lært af helförinni.“

Gerstenfeld lætur þess því næst getið að árið 2012 hafi hann beint athygli Simon Wiesenthal stofnunarinnar að þessu „hatursfulla athæfi“.

Fimmtíu neikvæðar vísanir til gyðinga

Segir hann rabbínana Marvin Hier og Abraham Cooper, forstöðumenn stofnunarinnar, hafa skrifað bréf til Páls Magnússonar, þáverandi útvarpsstjóra. Tóku þeir fram að í sálmunum væru meira en fimmtíu vísanir til gyðinga og að allar væru þær neikvæðar. Þá bentu þeir að auki á að það þætti mikill heiður hér á landi að vera boðið til að lesa sálm fyrir útsendinguna. Meðal þeirra sem hefðu þegið þennan heiður væri sjálfur forseti Íslands.

„Á þeim tíma hafði bréfið engin áhrif. Ferðaviðvörun stofnunarinnar núna, vegna innkaupabanns Reykjavíkur á ísraelskum vörum, virðist hafa haft talsvert meiri áhrif,“ segir Gerstenfeld og bendir á orð forstöðumanns Simon Wiesenthal stofnunarinnar.

„Þegar kjörnir leiðtogar höfuðborgarinnar samþykkja öfgakennd lög gegn Ísrael og gyðingum, viljum við vara alla meðlimi gyðingasamfélagsins við því að ferðast þangað.“

Össur Skarphéðinsson og Bobby Fischer

Gerstenfeld bendir á að tillagan um sniðgönguna hafi komið frá Samfylkingunni. Í því samhengi nefnir hann að flokkurinn hafi í tíð síðustu ríkisstjórnar lofað Palestínumönnum stuðningi við að fá viðurkenningu sem ríki á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þá sé Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, þekktur fyrir að hunsa Ísrael.

„Sú ákvörðun Íslendinga að gefa ríkisborgararétt til fyrrum heimsmeistarans í skák, Bobby Fischers, var enn ein skammarleg og andgyðingleg aðgerð Íslands. Fischer, ofstækisfullur gyðingahatari af gyðingaættum, var í haldi í japönsku fangelsi á þeim tíma og freistaði þess að forðast flutning til Bandaríkjanna,“ segir Gerstenfeld meðal annars í grein sinni.

Á fréttavefnum er hann sagður hafa starfað lengi sem strategískur ráðgjafi fyrir stjórnir alþjóðlegra fyrirtækja í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá fékk hann árið 2012 heiðursverðlaun ritsins „Journal for the Study of Anti-Semitism“, en samkvæmt nafninu fjallar ritið um rannsóknir á gyðingahatri.

Sjá greinina í heild sinni

Sálmar Hallgríms Péturssonar fá gagnrýni að utan.
Sálmar Hallgríms Péturssonar fá gagnrýni að utan.
Hallgrímskirkja í Reykjavík.
Hallgrímskirkja í Reykjavík. Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert