Samfylkingin er ennþá föst í sömu gömlu frösunum og með sömu gömlu þingmennina og fyrir hrun. Þetta sagði Natan Kolbeinsson, fyrrverandi formaður Hallveigar - félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Gagnrýndi hann flokkinn fyrir dræma nýliðun.
„Engar marktækar breytingar virðast ætla að eiga sér stað á þingflokknum á þessu kjörtímabili, því flestallir varaþingmenn okkar eru fyrrverandi þingmenn,“ sagði Natan. „Nú hugsa eflaust margir að lítið af nýju fólki hafi komist að vegna lélegs fylgis í síðustu kosningum. Samt er það þannig að Samfylkingin hefði þurft að fjórfalda fylgi sitt í kosningunum til að fá ungan einstakling sem fulltrúa inn á þing.“
Sagði hann flokkinn nauðsynlega þurfa á kynslóðaskiptum að halda, og að nýtt fólk fái raunveruleg tækifæri til að komast að. Hvatti hann kjördæmaráð til að fylgja því fordæmi sem hann sagði að sett hefði verið fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, þegar ungir jafnaðarmenn í Reykjavík fengu það í gegn að á efstu fimm sætum listans væri að minnsta kosti einn einstaklingur 35 ára eða yngri.
„Og jafnvel ganga ennþá lengra því að fimmta sæti á lista er mjög ólíklegt til að gefa þingsæti að loknum kosningum. Vil ég því skora á ykkur að tryggja að einn ungur einstaklingur verði í einu af efstu þremur sætum í hverju kjördæmi.“
Lauk hann loks ræðu sinni á eftirfarandi tilvitnun í lag Vilhjálms Vilhjálmssonar.
Ég held við ættum stundum að hlusta aðeins betur
á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land,
því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur
komið fram með svörin, þar sem siglum við í strand.