„Þetta er mjög frústrerandi mál í alla staði verð ég að viðurkenna. Mér finnst bara gríðarlega frústrerandi að þessi tillaga hafi ekki verið betur hugsuð og betur einhvern veginn undirbúin,“ sagði Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun um tillögu um að sniðganga vörur frá Ísrael sem meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti á dögunum.
Tillagan var samþykkt með atkvæðum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Heiða sagði að þegar ætlunin væri að mótmæla mannréttindabrotum með þessum hætti þyrfti að standa betur að málum. Rifjaði hún upp þegar Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, hafi mótmælt framgöngu rússneskra stjórnvalda í garð pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot á sínum tíma og framgöngu kínverskra ráðamanna í garð þarlends andófsmanns. Hvort tveggja hefði kallað á sterk viðbrögð og undir það hefði fólk verið búið. Við svona aðstæður færi maskína í gang. Sagðist hún upplifa það sem slæmt að ekki væri hægt að tjá sig um mál án þess að það gerðist.
Spurð hvort ekki hefðu verið mistök að standa að málinu með þeim hætti sem gert var tók Heiða algerlega undir það. „Ef þú getur ekki staðið með því sem þú ert að gera, ef þú ert ekki nógu meðvitaður um það sem þú ert að gera þá bara kemur það ekki vel út fyrir neinn. Málstaðurinn tapast í leiðinni.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði gott að vilja beina viðskiptum sínum þangað sem ekki væri verið að fremja mannréttindabrot. Það væri hins vegar eitt að fara í átök við Kínverja og Rússa en annað að fara gegn Bandaríkjamönnum í raun með því að beina spjótum sínum að Ísrael. Það væri „kannski ekki beint gáfulegasta hugmynd í heimi“.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði málið grafalvarlegt og klúður. Sagði hún framgöngu borgarstjórnarmeirihlutans fela í sér hroka. „Þetta er í rauninni valdhroki. [...] Að leyfa sér þetta, svona vanhugsað og rangt hugsað og svo einhvern veginn nota bara sem afsökun að einhverjar maskínur hafi farið af stað eins og þau beri ekki ábyrgð á þessari ákvörðun finnst mér ofboðslega alvarlegt.“ Dagur hlyti að íhuga stöðu sína sem borgarstjóri.