Lektor við Háskólann í Haifa í Ísrael leggur til að allir flóttamenn frá Mið-Austurlöndum sem komnir séu til Evrópu verði sendir til Íslands. Landið sé enda nánast tómt að hans mati og því nægt landrými. Þetta kemur fram í grein sem lektorinn, Steven Plaut, ritar á bandaríska fréttavefinn The Jewish Press, en tilefni skrifanna er ákvörðun Reykjavíkurborgar að sniðganga vörur frá Ísrael í innkaupum sínum.
Grein Plaut hefst á því að fjalla um fyrirhugaða sniðgöngu sem til stendur að breyta þannig að hún nái aðeins til þeirra svæða sem Ísrael hernemur að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Plaut lýsir Reykjavík sem ömurlega leiðinlegri borg og segir ekkert gyðingasamfélag þrífast hér á landi þó að ef til vill megi finna einstaka gyðing í landinu. Þannig muni til að mynda eiginkona forseta Íslands vera fyrrverandi íbúi Ísraels.
Plaut segir mikið tækifæri vera fyrir hendi til þess að leysa flóttamannavandann í Evrópu. Það felist í því að senda alla flóttamennina til Íslands enda sé þar nægt landrými. Spyr hann hvers vegna flóttamennirnir ættu ekki að fá að njóta þess að hlusta á Björk og borða skyr, hangikjöt, kleinur, laufabrauð og bollur. „Ísland er að mestu tómt og því er nægt pláss fyrir 700-800 þúsund flóttamenn frá Mið-Austurlöndum og innflytjendur.“
Segir ekkert gras vera á Íslandi
Plaut segist sannfærður um að Íslendingar væru reiðubúnir að koma til móts við nýju íbúana með því að banna svínakjötsát og fara fram á notkun höfuðklúta sem ætti ekki að vera mikið mál í ljósi veðurfarsins. Ekki sé hætta á að vondur íslenskur blaðamaður felli flóttamannabörn þannig að þau falli til jarðar á grasið þar sem ekkert sé grasið á Íslandi. Eftir allar alþjóðlegu björgunaraðgerðirnar sem Ísland hafi notið geti það varla kvartað.
Hins vegar sé einu vandamáli fyrir að fara. Ísland verði óbyggilegt á öld hverri vegna jarðhræringa og flóða þegar jöklar bráðni. Það væri ekki nógu gott ef það gerðist eftir að flóttamennirnir kæmu til landsins enda þyrfti þá að finna nýjan öruggan stað fyrir sýrlensku flóttamennina. Þá gæti Sýrland komið til greina.