Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafa lagt fram tillögu um stjórnarskrárbreytingu í þá veru að kosningaaldur verði lækkaður úr 18 árum í 16 ár.
Í greinargerð með tillögunni, sem hefur verið flutt áður, segir meðal annars: „Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðis. Þykja líkur til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanatöku, þar sem málum er ráðið til lykta með umræðu og síðan kosningum, ef ekki gefst kostur á þátttöku jafnskjótt og vitund einstaklingsins um áhrifamátt sinn og ábyrgð á eigin velferð og samfélagsins hefur vaknað. Að sjálfsögðu eiga hér einnig við hin almennu sjónarmið um lýðræðislega framkvæmd, þ.e. að mikil og víðtæk þátttaka í kosningum gefi traustasta vitneskju um vilja borgaranna og því mikilvægt að sem allra flestir njóti atkvæðisréttar.“