Segir orð sín um borgarstjóra sjálfsögð

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir.

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist líta svo á að það sé sjálfsagt að borgarstjóri íhugi afsögn í ljósi þess sem undan er gengið vegna tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur um að borgin sniðgangi vörur frá Ísrael. Dagur B. Eggertsson sagði í Fréttablaðinu í morgun að ummæli Hildar þess efnis að borgarstjóri íhugaði afsögn væru „stór orð“.

„Ég sé að borgarstjóra finnst að orð mín um að hann ætti að íhuga afsögn séu stór orð. Það þykir mér áhugavert. Það verður að teljast merkilegt að í þessu risavaxna klúðri telji borgarstjóri að hann þurfi ekki einu sinni að íhuga hvernig hann getur best axlað sína ábyrgð til að stemma stigu við skaðanum sem þetta illa unna mál hefur valdið,“ segir Hildur á Facebooksíðu sinni í dag.

„Hann er vissulega maður að meiri að biðjast nokkurn veginn afsökunar með því að segjast vera sjálfum sér reiður og ætla að draga tillöguna eins og hún stendur til baka að einhverju leyti. Hann hefur reyndar gert talsvert af því að biðjast afsökunar og þykja leitt að hlutir séu ekki nógu vel unnir, og er þar nærtækt að nefna til dæmis ferðaþjónustu fatlaðra og risavaxið tap á árshlutareikningi borgarsjóðs sem ekki sér fyrir endann á,“ segir Hildur ennfremur á Facebook.

Hún segir jafnframt að borgarstjóri þurfi að eiga það við sjálfan sig ef honum þykir nægilegt að meirihlutanum þyki leitt að standa sig ekki betur en hann geri, án þess að axla nokkra ábyrgð á því. Hvorki hún né Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn krefjist hins vegar formlegrar afsagnar borgarstjóra - hann verði á hinn bókinn að standa reikningsskil gagnvart kjósendum síðar meir, segir Hildur í færslunni.

„Það er helsti og besti öryggisventill stjórnmálanna að kjósendur eiga alltaf síðasta orðið og enginn í þessu máli er að fara að breyta því. En að benda á að borgarstjóri, í hlutverki sínu sem æðsti valdhafi borgarinnar í þessu máli, eigi að íhuga hvernig best sé að axla þá pólitísku ábyrgð sína nógu sannfærandi er ekki stóryrt – það er sjálfsagt,“ segir Hildur.

Ég sé að borgarstjóra finnst að orð mín um að hann ætti að íhuga afsögn séu stór orð. Það þykir mér áhugavert. Það verð...

Posted by Hildur Sverrisdóttir on Monday, September 21, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert