Samþykkt tillögu borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur í síðustu viku hefur valdið miklu fjaðrafoki. Fjölmargir Ísraelar hafa brugðist við með tölvupóstum þar sem þeir segjast vera hættir við ferðalög til Íslands eða sniðgöngu á íslenskum vörum. Utanríkisráðherra sagði tillöguna ekki í samræmi við lög og alþjóðasamninga og forsætisráðherra segir að málið hafi skaðað viðskiptahagsmuni. Á laugardaginn tilkynnti svo Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að tillagan yrði dregin tilbaka. Samþykkt tillögunnar hefur þó ekki aðeins mætt mótbyr á erlendri grund heldur var til dæmis alþjóðlega Facebook síðan I stand with Iceland sett upp til að styðja við hana.
„Við erum þakklát borgarstjórn Reykjavíkur sem sýndi mikið hugrekki við að samþykkja tillöguna,“ segir Yousef Tamimi hjá BDS (Boycott, Divestment and Sanctions National Committee) á Íslandi. „Þetta er gott fólk og hugur þeirra er með Palestínumönnum. Okkur þótti auðvitað sorglegt að þau hafi ákveðið að draga þetta tilbaka og þau hafa sennilega ekki verið undirbúin við þessum sterku og miklu viðbrögðum frá Ísrael, sem þó komu alls ekki á óvart. Undanfarin vika er þó mjög jákvæð í heildina og við erum mjög stolt af því að borgarstjórn hafi opnað fyrir umræðuna.“
Yousef segir aðferðina við að sniðganga tiltölulega nýja fyrir íslendingum og þyki kannski öfgakennd. „En við höfum reynt allar aðrar aðferðir og þær hafa ekki sýnt árangur. Í þessi tíu ár frá því að samtökin voru stofnuð höfum við náð miklum árangri með friðsamlegri aðferð sem miðar bæði að því að tjá siðferðislega og pólitíska vanþóknun á viðvarandi aðgerðum einstaklinga eða stofnanna sem skaða aðra. Ákvörðun Reykjavíkurborgar vakti umræður út um allan heim og athygli á málstaðnum."
Riya Hassan, fulltrúi BDS í Evrópumálum, fagnaði samþykkt tillögunnar í síðustu viku og á vef alþjóðlegu BDS samtakanna sagði hún að ákvörðun Reykjavíkurborgar væri „aðsópsmikil ákvörðun fyrir mannréttindi og Palestínsku þjóðina og baráttu þeirra fyrir réttlæti, jafnrétti og frelsi.“ Hún bætir við: „Hvað svo sem Ísrael og þeir sem standa með ísraelsku ríkisstjórninni kasta í stjórn Reykjavíkurborgar er ekkert sem getur tekið í burtu þessa siðferðislegu ákvörðun sem borgin tók, lýðræðislega ákvörðun til að standa með mannréttindum.“
Fjölmargar borgir og fyrirtæki á alþjóðavísu hafa samþykkt tillögur um að sniðganga ísraelskar vörur frá hernumdum svæðum, en þess ber að geta að í tillögu borgarstjórnar var ekki tiltekið að hún beindist aðeins gegn vorum frá hernámssvæðum. Til dæmis má nefna að í júní samþykkti borgarstjórn Kaupmannahafnar að sniðganga ísraelskar vörur frá hernumdum svæðum og einnig hefur Evrópuþingið samþykkt að ísraelskar vörur frá hernumdum svæðum verði merktar. Fjöldi bæjarstjórna í Svíþjóð, á Spáni, Bretlandi, Frakklandi og Noregi hafa einnig samþykkt svipaðar tillögur á undanförnum árum.
Alþjóðahreyfingin BDS samtökin voru stofnuð árið 2005 og þau skora á þjóðir, fyrirtæki og einstaklinga um heim allan að hefja víðtæka sniðgöngu á Ísrael. Fyrirmynd ákallsins voru þær aðferðir sem beitt var gegn Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar og það felur í sér að sniðganga ísraelska framleiðslu, hvatningu um að hætta fjárfestingum og kröfu um viðskiptaþvinganir gegn Ísrael, þar til að réttindi Palestínumanna verða virt að fullu í samræmi við alþjóðalög. Þetta þýðir að stöðva hernám og nýlendustefnu á öllum Vesturbakkanum sem og að fjarlægja aðskilnaðarmúrinn sem var dæmdur ólöglegur af Alþjóðlega glæpadómstólnum og viðurkenna grundvallarréttindi þeirra borgara í Ísrael sem teljast Palestínuarabar og veita þeim sömu réttindi og aðrir borgarar njóta. Einnig leggur það áherslu á að virða, vernda og stuðla að réttindum palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til sinna heimkynna eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna nr. 194 gerir ráð fyrir.
Meðal þeirra ástæðna sem íslensku BDS samtökin telja upp eru þær að Ísrael fái mestu peningaaðstoð og vopn frá Bandaríkjunum allra ríkja, vopn og peningaaðstoð sem eru svo notuð til að fremja stríðglæpi gegn mannkyninu en einnig sé þar notast við hóprefsingar og kerfisbundnar pyntingar. Ísrael hafi brotið fleiri samþykktir Sameinuðu þjóðanna heldur en nokkuð annað land í heiminum og að neitunarvald Bandaríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafi verndað Ísrael ítrekað gegn öllum tilraunum til að neyða þá til að fara eftir samþykktunum.
BDS samtökin segja einnig að í Ísrael fari fram kerfisbundin og stofnanavædd kynþáttamismunum. Ísrael framkvæmi þjóðernishreinsanir sem það kallar „íbúaflutning“ og framfylgi stefnum sem falla undir alþjóðlega skilgreiningu á aðskilnaraðstefnu eða það sem kallast Apartheid á ensku. „Samkvæmt grunnlögum í Ísrael er hægt að skilgreina þegna þess á tvo vegu," segir Yousef Tamimi. „Þá sem hafa ríkisborgarararétt og þá sem eru af ísraelsku þjóðerni. Ríkisborgararéttinn geta gyðingar fengið en einnig fólk af öðrum kynþáttum. Aðeins þeir sem eru af gyðingaættum geta talist vera af ísraelsku þjóðerni. Ísraelska þjóðernið tryggir einstaklingi réttindi umfram þá sem hafa það ekki, líkt og arabar, í gegnum lagasamþykktir og á fleiri vegu.“
Yousef segir einnig að gagnrýni á Ísrael og opnar umræður um stefnu Ísraels séu oft þaggaðar niður og þeir sem tjái sig opinberlega um Ísrael séu úthrópaðir gyðingahatarar eða and-semítískir. „And-semítískur hugsunarháttur sem á ekkert skylt við þau rök sem notuð eru gegn stefnu Ísraels. Að stuðla að aðskilnaði, standa á bak við hernám, þjóðernishreinsun, byggingu ólöglegra landnemabyggða og að víkka út eigið landsvæði er ekki byggt á gyðingdóm heldur frekar pólitískri hugsjón síonisma. Þessar hugmyndir hafa ekki rétt á sér samkvæmt alþjóðalögum, stjórnmálasögu eða í flestum afbrigðum gyðingdóms eða menningu gyðinga. Síonismi er pólitísk hreyfing sem er alls ekki studd af öllum gyðingum í heiminum.“