Vissu ekki um milljarðana

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tveimur árum eftir að einkaskiptum var lokið á dánarbúi stóreignamanns í Reykjavík kom í ljós að hann átti miklar eignir í Kaupþingi í Lúxemborg og síðar Banque Havilland sem erfingjar búsins vissu ekki af þegar skiptin fóru fram. Um var að ræða rúmlega fjóra milljarða króna.

Málið fór fyrir dómstóla í kjölfarið þar sem þrjú barna mannsins voru sökuð um það af hálfbróður sínum að hafa leynt hann tilvist fjármunanna. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði systkini hans hins vegar og Hæstiréttur staðfesti síðan þann dóm í síðustu viku. Dánarbúið var gert upp árið 2007 en í desember árið 2009 fengu systkinin upplýsingar um milljarðana í Lúxemborg. Erfingjarnir gerðu í kjölfarið með sér samkomulag í maí 2010 um skiptingu þeirra en eftir að greidd höfðu verið opinber gjöld og kostnaður stóðu eftir rúmir 3,7 milljarðar króna. Hlutur hálfbróðursins var 12,5% af þeirri fjárhæð eða tæpar 466 milljónir króna fyrir erfðafjárskatt.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að við undirritun samkomulagsins hafi hálfbróðirinn haft fullnægjandi aðgang að upplýsingum um þær eignir dánarbúsins sem ekki komu til einkaskipta á árinu 2007, hvar eignirnar hafi verið varðveittar eftir lát föður hans og hvaða tilkall hann ætti til arfs af þeim. Héraðsdómur gat þess engu að síður í sýknudómi sínum að það hafi dregist óhæfilega lengi að upplýsa hálfbróðurinn um tilvist eignanna í Lúxemborg. Eftir sem áður hafi hann haft aðgang að upplýsingum um málið við undirritun samkomulagsins í maí 2010. Þá verði ekki séð að tjón hafi orðið af því að hann var ekki upplýstur fyrir þann tíma.

Dómur Hæstaréttar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert