Búrhval rak á land á Sólheimasandi

Bifreið Mountain taxi við hlið hvalsins á Sólheimasandi.
Bifreið Mountain taxi við hlið hvalsins á Sólheimasandi. Mynd/Benedikt Þ. Gröndal

Búrhval rak á fjörur á Sólheimasandi nýlega, en það var Benedikt Þ. Gröndal, ökumaður hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Mountain taxi, sem kom fyrst að dýrinu um miðjan dag í gær. Í samtali við mbl.is segir hann að líklega hafi það verið nýrekið á land enda hafi lítil sem engin lykt verið af hræinu og þá hafi engin spor eða hjólför verið nálægt. Segir hann staðinn nokkuð vinsælan áfangastað ferðamanna og því líklegt að einhver hefði rekið augun í hvalinn ef hann hefði verið þar í marga daga.

Hvalurinn er að sögn Benedikts um 10-12 metrar að lengd, en hann sást vel í þó nokkurri fjarlægð og ákvað Benedikt að keyra nær og athuga málið betur með tvo ferðamenn frá Bandaríkjunum sem voru með í för. Segir hann að ferðamönnunum, sem eru hjón frá Bandaríkjunum, hafi þótt þetta mjög áhugavert og ágætis viðbót við gott veður sem hópurinn fékk á Suðurlandi í gær.

Hvalurinn er á Sólheimasandi, rétt austan við Skógá að sögn Benedikts, en hann lét lögreglu á staðnum vita af fundinum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar verður farið á staðinn núna eftir hádegi í dag og verður haft samband við viðkomandi stofnanir í framhaldinu, eins og Hafrannsóknarstofnun.

Búrhvali rekur oftar en aðra hvali á land, þótt ekki sé vitað um ástæðu þess. Í fyrra rak meðal annars slíkan hval á land við Breiðdal. Hann var lifandi þegar hann rak á land. Samkvæmt frétt Rúv frá því í fyrra var verðmæti tanna í hvalnum metið á 1,5 milljónir. Búrhvalstennur eru úr mjög hörðu efni, en þær eru meðal annars notaðar í ýmiskonar skartgripi. Landeigandi á rétt á að nýta verðmæti af hvalreka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert