Ekkert þokaðist til í viðræðum Sjúkraliðafélags Íslands, SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu og Landssambands lögreglumanna við ríkið á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir að embætti ríkissaksóknara hafi boðað til fundarins í gær. „Þetta var bara þessi skyldutilköllun. Það var ekkert nýtt í spilunum hvorugu megin frá,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands í samtali við mbl.is.
Í dag hefst atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls og býst Kristín við einróma afstöðu. Atkvæðagreiðslan fer rafrænt fram og stendur í viku, eða til þriðjudagsins 29. september.
„Við létum halda könnun fyrir nokkru síðan um þessi mál. Þar kom fram að 90% þeirra sem svöruðu voru á því að boða til verkfalls. Það var alveg marktækur hópur sem tók þátt og langflestir fylgjandi því að fara eftir því sem kjaramálanefnd félagsins telur þurfa,“ segir Kristín og bætir við að sjúkraliðar sætti sig ekki við að bilið á milli þeirra og hjúkrunarfræðinga breikki enn frekar. „Við höfum líka verið að fara vítt og breitt á fundi og við sjáum að það er alveg auðheyranlega mikill hugur í fólki, að það gangi ekki upp að breikka bilið milli þeirra stétta sem starfa saman.“