Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir íslenskan almenning hafa mikinn hag af auknu frelsi í viðskiptum með kjötvörur. Það sé hagur neytenda að sem fæstar hindranir séu í vegi milliríkjaviðskipta.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Hann hafnar því sem haft er eftir hagfræðingi hjá Bændasamtökunum í Morgunblaðinu í dag, að kjötmarkaðurinn á Íslandi sé að taka gerbreytingum vegna boðaðra breytinga á tollum á innflutt kjöt. Lesa má um málið hér.
Máli sínu til stuðnings vísar Ólafur til umfjöllunar á vef Félags atvinnurekenda þar sem segir að þegar stækkaðir tollkvótar verða komnir að fullu til framkvæmda, þá væntanlega árið 2020, verði þeir engu að síður aðeins rúmlega 10% af innanlandsneyzlu í svína- og kjúklingakjöti eins og hún var árin 2011-2013.
Fulltrúar svína- og kjúklingabænda á Íslandi andmæla þessu í Morgunblaðinu í dag; segja það skekkja myndina að bera saman innflutning á hreinu kjöti annars vegar og á innlendum skrokkum, að beinum meðtöldum, hins vegar.
Gengið skemmra en lagt var til
Nú er það sjónarmið svínabænda og kjúklingabænda að kvótarnir muni fyrst og fremst eiga við hreint kjöt, án beina og svo framvegis. Því séu tollarnir hærra hlutfall innanlandsframleiðslunnar en þú tilgreinir. Hvernig bregstu við því sjónarmiði?
„Reynslan á eftir að leiða það í ljós hvernig vörur verða fluttar inn á þessum tollkvótum. Jafnvel þótt innflutningskvótarnir séu umreiknaðir í skrokka með beini eru þeir aðeins lítill hluti innanlandsneyzlu og -framleiðslu á þessum vörum. Þeir auka vissulega samkeppnina við þessar búgreinar, en þó er gengið miklu skemmra í þá átt en til dæmis Samkeppniseftirlitið, Hagfræðistofnun HÍ, OECD, Samráðsvettvangur um aukna hagsæld og fleiri hafa gert tillögur um undanfarin ár.“
Gerist þrátt fyrir mjög takmarkaða tollkvóta
Ólafur segir einnig að staðan sé orðin sú að innflutningur sé nú þegar orðinn yfir tugur prósenta neyzlunnar í nauta-, svína- og kjúklingakjöti eins og fram komi í skýrslu starfshóps atvinnuvegaráðuneytisins um tollamál í landbúnaðinn, sem kom út í lok síðasta árs. Það gerist þrátt fyrir mjög takmarkaða tollkvóta samkvæmt alþjóðasamningum; stór hluti þessa innflutnings sé tilkominn vegna þess að innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn.
Nú er það sjónarmið sömu aðila að með réttu fyrirkomulagi geti innlendir framleiðendur vel annað aukinni eftirspurn, sem er meðal annars tilkomin vegna aukinnar neyslu ferðamanna. Væri það ekki hagur íslenskra atvinnurekenda að efla landbúnaðinn á þennan hátt?
„Ég veit ekki alveg hvað er átt við með „réttu fyrirkomulagi“. Ef það felst í því að þrengja að heimildum til innflutnings, eins og t.d. svínabændur hafa lagt til, er það augljóslega rangt fyrirkomulag. Neytendur eiga ekki að þurfa að líða fyrir það með vöruskorti og/eða hækkandi verði að innlendir framleiðendur geti ekki annað eftirspurn um lengri eða skemmri tíma. Leiðin til að leysa úr vöruskorti og halda verði til neytenda sem lægstu er að milliríkjaviðskipti séu sem frjálsust. Það er ekki bara hagur atvinnurekenda, heldur þjóðarinnar í heild að viðskipti séu frjáls og dregið úr þeirri sóun og óhagræði sem viðskiptahömlur valda. Ágæt rök fyrir þessu eru til dæmis færð í nýlegri skilagrein starfshóps, sem undirbjó fyrir fjármálaráðherra tillögur að lækkun tolla.“
Kröfurnar mögulega ekki alltaf jafn strangar og hér
Þá langar mig til að spyrja þig út í það sjónarmið íslenskra svínabænda og kjúklingabænda, að hér á landi séu strangari kröfur á aðbúnað dýranna en í sumum þeim löndum sem meira verður flutt inn frá. Jafnframt er á það bent að notkun sýklalyfja sé algeng í evrópskum landbúnaði. Neysla slíkra vara sé því eftir atvikum ekki góð út frá lýðheilsusjónarmiðum.
„Það er mögulegt að í einhverjum löndum, sem flutt er inn frá, séu ekki eins strangar kröfur og hér. Það er líka mögulegt að í einhverjum löndum séu strangari kröfur. Almennt hefur þó þróunin verið sú undanfarin ár að strangari kröfur hérlendis um aðbúnað dýra eru til komnar vegna Evrópureglna og/eða að fyrirmynd frá nágrannalöndum okkar. Ef skoðuð er t.d. nýleg reglugerð um bættan aðbúnað alifugla kemur þar fram að íslenzkum alifuglabúum ber að taka upp nýja gerð af búrum níu árum á eftir keppinautum í öðrum Evrópuríkjum. Þar eru önnur ákvæði sem eru sett inn að norrænni fyrirmynd, o.s.frv. Almennt er Matvælastofnun á því að kröfurnar í nágrannalöndum okkar hafi verið hertar, í þágu dýravelferðar, en Ísland dregizt þar aftur úr,“ segir Ólafur og vísar til þessarar vefsíðu.
Verður ekki lasið af því að borða kjöt í útlöndum
„Hvað sýklalyfjanotkunina varðar, er það rétt að hún er að meðaltali meiri í landbúnaði flestra ríkja en á Íslandi. Noregur er líklega helzta undantekningin. Það breytir ekki því að þessar vörur standast heilbrigðiskröfur í nágrannalöndunum, sem eru að stærstum hluta þær sömu og á Íslandi. Almennt verður fólk ekki mikið lasið af því að borða kjötið sem er framleitt í þessum löndum. Þá er ekki sanngjarnt að setja allan landbúnað heilu ríkjanna undir sama hatt að þessu leyti; lyfjanotkun getur verið mismunandi eftir framleiðendum.
Umræðan um aðbúnað dýra, lyfjanotkun, sýkingar og fleira slíkt í svína- og alifuglarækt á að vera sem opnust og neytendur eiga að fá sem ríkastar upplýsingar, bæði um innlenda og innflutta vöru. Að þessi atriði geti verið mismunandi á milli landa eru ekki rök fyrir því að hindra milliríkjaviðskipti með svína- og alifuglakjöt. Neytendur eiga einmitt að eiga geta valið um vörur sem standast heilbrigðiskröfur og myndað sér síðan skoðun á því hvað þeir vilja kaupa, út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Ef íslenzkir bændur geta sýnt fram á minni lyfjanotkun, betri búskaparhætti og betri aðbúnað dýra öðlast þeir sjálfkrafa samkeppnisforskot gagnvart neytendum sem láta slíka þætti vega þyngra en til dæmis verð þegar þeir taka ákvarðanir um innkaup sín.“
Deilir Félag atvinnurekenda þessum áhyggjum íslenskra bænda af afleiðingum aukins innflutnings á landbúnaðarvörum?
„Af framansögðu ætti að vera ljóst að við deilum ekki þeim áhyggjum,“ segir Ólafur Stephensen.