Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, beindi í dag fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, um hvort hann hyggist friða landsvæðið sem innanlandsflugvöllurinn í Vatnsmýri er á, eða byggingar á flugvallarsvæðinu, nái breyting á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, fram að ganga á þessu þingi.
Þá spyr hún einnig hvort ráðherra hyggist taka eignarnámi byggingar á flugvallarsvæðinu, eða flugvallarsvæðið í heild, nái breytingarnar fram að ganga.
Breytingarnar sem hún á við eru þær sem boðaðar voru í tillögu að frumvarpi í gær. Nái breytingarnar fram að ganga hefði forsætisráðherra heimild til að taka lönd, mannvirki og réttindi eignarnámi til að framkvæma friðlýsingu samkvæmt lögunum.
Í frumvarpinu segir að menningarminjar teljist vera ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar.