Kveðinn var upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun um að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari viki ekki sæti í Aurum Holding-málinu.
Sérstakur saksóknari hafði farið fram á að Guðjón viki sæti í málinu á þeim forsendum að ekki ríkti traust til hans eftir að hann hefði gert alvarlegar athugasemdir við starfsaðferðir embættisins. Fyrir vikið væri fyrir hendi réttmæt tortryggni um óhlutdrægni Guðjóns.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, lýsti því yfir eftir að úrskurðurinn lá fyrir að embættið myndi fara yfir úrskurðinn og meta hvort hann yrði kærður. Það myndi liggja fyrir á næstu dögum. Málinu var í kjölfarið frestað í ótiltekinn tíma.
Ákærðu í málinu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson fyrrverandi eigendur og stjórnendur Glitnis banka. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis til félagsins FS38 í júlí 2008 en lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited.