Félagið Ísland-Palestína harmar ákvörðun borgarstjórnar

Palestínumenn berjast til að frelsa dreng úr haldi ísraelskra öryggissveita.
Palestínumenn berjast til að frelsa dreng úr haldi ísraelskra öryggissveita. AFP

Félagið Ísland-Palestína hefur sent ályktun til fjölmiðla þar sem þau harma þá ákvörðun borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september án þess að fyrir liggi tillaga um sniðgöngu gagnvart landtökubyggðum í Palestínu, en byggðirnar og landtakan séu skýrt brot á alþjóðalögum. 

Ályktunin er svohljóðandi:

„Félagið Ísland-Palestína fagnar þeirri samstöðu við réttindabaráttu Palestínumanna og andóf gagnvart mannréttindabrotum, hernámi, herkví og árásum af hálfu Ísraelsríkis, sem birtist í samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur 15. september 2015 um sniðgöngu á vörum frá Ísrael meðan hernám Palestínu varir. Félagið fagnar jafnframt hugmyndum borgarstjóra um sniðgöngu á vörum frá landtökubyggðum í hertekinni Palestínu.

Félagið Ísland-Palestína harmar þá ákvörðun borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september án þess að fyrir liggi tillaga um sniðgöngu gagnvart landtökubyggðum, en byggðirnar og landtakan eru skýrt brot á alþjóðalögum.

Félagið Ísland-Palestína hvetur til þess að friðsamleg sniðgönguáform verði ekki slegin út af borðinu þegar meirihluti borgarstjórnar og borgarstjóri hafa áður lýst sig fylgjandi þeim og að mannréttindasjónarmið séu lögð til grundvallar í samræmi við yfirlýsta mannréttindastefnu borgarinnar, mannréttindasáttmála og alþjóðalög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert