„Lúxuskröfur hækka húsnæðisverð“

Með því að lauma inn lúxuskröfum í byggingarreglugerðir er búið að taka út milliþrep á fasteignamarkaði að sögn Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings, hann hefur að undanförnu lagst yfir reglugerðir og áætlar gróft að stundum geti þær hækkað verð íbúða um 10 milljónir króna að óþörfu að hans mati. 

Jóhannes birti í gær grein í Morgunblaðinu þar sem hann fer yfir málið en það sem hann kallar lúxuskröfur eru kröfur í reglugerðum um að hafa svalir eða pláss fyrir hjól og barnavagna. Með því sé íbúðaverð á eftirsóknarverðum stöðum hækkað gríðarlega því þar eigi slíkar reglur við. Miðsvæðis sé gjarnan byggt hátt og reglurnar ná til húsa sem séu hærri en tveggja hæða.

Mikil vöntun er á ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og í fyrra hugðist fyrirtækið Smáíbúðir bjóða upp á lausn sem gæti t.a.m. hentað námsfólki og gekk út á að útbúa íbúðir í gámum. Ekki gekk það eftir hjá fyrirtækinu að semja við Reykjavíkurborg eða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um útfærslu á byggingu gámaíbúðanna en Auðunn Bjarni Ólafsson einn af eigendunum segist hafa gefist upp á viðræðum við kerfið og sneri sér að öðru.

Nýlega var tilkynnt um viðamiklar aðgerðir stjórnvalda til að fjölga félagslegum íbúðum um 2.300-2.600 á næstu árum en greiningardeild Arion banka hefur varað við því að aðgerðirnar gætu endað með að styrkja lítið við þá sem hjálpa á. Afleiðingarnar gætu birst í hærra verði og kynnt und­ir verðbólgu.

mbl.is ræddi við Jóhannes í dag sem bendir á að kröfur um ákveðna tegund af byggingum vinni í raun gegn því að skapandi lausnir myndist á markaðnum.

Eitt þeirra meðala sem greiningardeild Arion banka benti á snemma í sumar til að vinna gegn þenslu húsnæðisverðs var að draga úr kröfum í byggingarreglugerðum og lækka þannig húsnæðiskostnað.

Viðbót 25.09.2015: í myndskeiðinu er talað um að svalir séu innifaldar í þeim fermetrafjölda sem Jóhannes tínir til að bætist við en hið rétta er að viðbótarfermetrarnir eiga bæði við um byggingarrými í sameign: þvottarými, stiga, geymslur, aðkoma að geymslum ásamt lyftum ofl. og í séreign: stærð baðherbergis, aðkoma að baðherbergi o.fl.

Almennt séð þá eiga kröfur um geymslu og þvottarými  við um allar íbúðir, kröfur um svalir eiga við þegar íbúðir eru á annarri hæð eða hærra, og lyftu og hjólastólakröfur eiga við í öllum íbúðum fjölbýlishúsa sem eru þrjár hæðir eða hærri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka